Grasflötin og góð ráð gegn mosa

Gott almennt viðhald á grasflötum felst í því að halda yfirboðinu loftríku og skapa grasrótunum góð lífsskilyrði. Í því felst að fjarlægja slægjuna eftir hvern slátt. Einnig að sáldra sandi og lífrænum áburði reglulega yfir grasflatirnar á vorin með venjulegri áburðargjöf. Í mikilli vætutíð ætti að forðast að þjappa grasflötina með leikjum eða aðgangsharðri umferð.

Grasflötin þarf áburð á sumrin til að haldast vel græn og frísk. Hæfilegur áburðarskammtur fyrir sumarið er um 7,5 kíló af grasáburði sem skipt er niður í þrjár gjafir (hér er miðað við 100 fermetra). Fyrsti skammtur er gefinn um miðjan maí, 3 kg/100 fm. Sama magn er svo borið á mánuði síðar. Í lok júlí er svo gefið 1,5 kg/100 fm.

Mosatætarar koma að góðum notum ef mikill mosi er í garðinum. Áhaldaleiga Húsasmiðjunnar hefur til leigu mosatætara.

Mosa úr grasflöt má einnig útrýma með mosaeyði. Notist samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Viku síðar má svo skerpa á grasvextinum með 1,5 kg/100 fm af kalksaltpétri með venjulegri áburðargjöf.

Svona eyðum við mosa

1. Tætum eða rökum mosann í grasflötinni
2. Berum grasáburð á grasflötina
3. Berum turbokalk á grasflötina
4. Sáum grasfræi í sárin
5. Blöndum grasfræjum saman við úrvals gróðurmold áður en sáð er
6. Græn og falleg grasflöt eftir 2-3 vikur

Illgresi í grasflöt

Ýmiskonar illgresi vex oft í grasflöt.
Einkum eru það fíflar og skriðsóleyjar. 
Fíflana er tiltölulega einfalt að fjarlægja handvirkt með fíflajárnum eða skera þá burtu með hníf eða skóflu. 

Einnig má nota sérvirk efni til að úða með gegn tvíkímblaða plöntum í grasflötum. Upplýsingar um þau fást hjá garðyrkjufræðingum Blómavals.