Verslun Húsasmiðjunnar á Akureyri fær alþjóðleg verðlaun

Verslun Húsasmiðjunnar á Akureyri hefur fengið alþjóðleg verðlaun fyrir hönnun, útlit og notagildi. Samskonar verslun hefur verið opnuð á Selfossi.

Verslun Húsasmiðjunnar á Akureyri hefur fengið alþjóðlegu hönnunarverðlaunin „DBA Design Effectiveness Awards“ fyrir hönnun, útlit, sjónaræna upplifun og notagildi. Verslunin var hönnuð af breska hönnunarfyrirtækinu M WorldWide og eru verðlaunin mikil viðurkenning fyrir samstarf Húsasmiðjunnar og M WorldWide. 

„Það skiptir okkur miklu máli að viðskiptavinum okkar líði vel í verslunum okkar og við hönnun verslunarinnar á Akureyri var einmitt horft til þess að uppsetning, útlit, sjónræn áhrif og notagildi væri í fyrirrúmi. Við höfum orðið vör við mikla ánægju viðskiptavina okkar með verslunina og út frá þessari stórglæsilegu hönnun getum við ekki einungis veitt betri þjónustu, heldur jafnframt betra úrval,” segir Kristín Dögg Jónsdóttir, rekstrarstjóri verslunar Húsasmiðjunnar á Akureyri.

„Heilt yfir er ekki mikill munur á Íslandi og öðrum löndum þegar kemur að smásölu. Ísland er vel þróaður markaður og hér er að finna sömu áskoranir og annars staðar. Markmiðið með nýrri hönnun verslana Húsasmiðjunnar og Blómavals er fyrst og fremst að auka upplifun, nútímavæða útlit og bæta þjónustu við viðskiptavini. DBA verðlaunin eru staðfesting á því að við erum á hárréttri leið með verslanir okkar á Akureyri, Selfossi og að ógleymdri nýrri og endurbættri Blómavalsverslun í Skútuvogi í Reykjavík. Móttökur viðskiptavina hafa svo úrslitaáhrif og satt best að segja hafa viðtökurnar farið langt fram úr væntingum,” segir Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar.

DBA Design Effectiveness Awards má líkja við Óskarsverðlaun kvikmyndaheimsins og þykir það mikil upphefð að hljóta þau. Dæmt er út frá fjölda mismunandi þátta og er ekki einungis horft út frá teikningum og myndum, heldur einnig raunverulegu notagildi og útliti. Verðlaunin hafa verið afhent árlega frá því árið 1989. Starfsfólk verslunar Húsasmiðjunnar á Akureyri fagnaði móttöku verðlaunanna í gær og var af því tilefni sett upp kynning á þeim við inngang hennar.  Ný verslun Húsasmiðjunnar á Selfossi byggir einmitt á sömu hönnun og því óhætt að segja að það sé verðlaunaverslun að auki. 

 

Nánari upplýsingar veitir:
Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar í síma: 525-3000 / magnusm@husa.is