Vinnustaðurinn

Hjá Húsasmiðjunni, Blómaval og Ískraft starfar öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu.

Markmið okkar er að vera lifandi og skemmtilegur vinnustaður þar sem ríkir góður starfsandi og sterk liðsheild, við viljum vera eftirsóknarverður vinnustaður. Við leggjum áherslu á jákvæð og góð samskipti, sýnum metnað í starfi og nýtum sérþekkingu okkar til þess að veita viðskiptavinum okkar úrvals þjónustu.

Starfssemin er fjölbreytt og við erum stolt af því að geta þjónustað bæði stærri og smærri bæjarfélög um land allt, enda reka Húsasmiðjan og Blómaval 14 verslanir um land allt og að auki 4 útibú frá Ískraft.

Fögnum fjölbreytileikanum

Hjá Húsasmiðjunni, Blómaval og Ískraft starfar fjölreyttur hópur rúmlega 500 starfsmanna.  Við bjóðum alla velkomna óháð kyni, kynhneigð eða kynþætti.

Við bjóðum fólki á "besta aldri" sérstaklega velkomið til okkar, því við kunnum að meta margskonar reynslu, þekkingu eða menntun, t.d. af smíðum, rafmagni, blómum, timbri, pípum eða bara almennri lífsreynslu. Við fögnum fjölbreytileikanum og trúum því að lífið sé eilífur lærdómur og tækifæri til að miðla.

Við erum liðsheild sem starfar saman alla daga í fjölbreyttum störfum, við hjálpumst að, erum jákvæð og höfum gaman í vinnunni.

Starfsþróun hjá Húsasmiðjunni

Störfin eru fjölbreytt og tækifæri til starfsþróunar víða. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að þróast í starfi, t.d. axla meiri ábyrgð í eigin starfi, færast til í starfi innan starfsstöðvar eða á milli starfsstöðva ásamt því að færast í hærri stöður.

Við erum svo heppin að mikið af okkar starfsmönnum eru með mjög langan starfsaldur, sá sem hefur hæstan starfsaldur hefur unnið hjá Húsasmiðjunni í 45 ár! 

Hvað segir fólkið okkar

Jafnlaunavottun

Húsasmiðjan, hefur hlotið jafnlaunavottun og heimild til að nota jafnlaunamerki velferðaráðuneytisins, fyrst fyrirtækja á íslenska byggingavörumarkaðnum. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Það skiptir miklu máli að allir sitji við sama borð þegar kemur að launaákvörðunum og er jafnlaunakerfi ætlað að tryggja að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum.

Við berum jafnlaunamerki velferðaráðuneytisins stolt.

Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að vita að til staðar sé stjórnkerfi sem tryggi að launaákvarðanir byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun vegna kyns eða annara ómálefnalegra þátta“

Jafnlaunastefna

Tækifæri til að læra, vaxa og þróast í starfi

Rík áhersla er lögð á að efla og viðhalda þekkingu starfsfólks og að auka þannig við möguleika starfsfólks til starfsþróunar. Í Húsasmiðjuskólanum er boðið upp á um 100 fjölbreytta fræðsluviðburði á hverri önn sem öll miða að því að efla og viðhalda faglegri og persónulegri hæfni starfsfólks. Fræðsluviðburðirnir eru ýmist í staðarnámi jafnt sem á rafrænu formi í gegnum sérstakt kennslukerfi eða fjarfundabúnað. Starfsmenn eru einnig hvattir til að sækja sér námskeið utan Húsasmiðjunnar eftir því sem á við og oft býður Húsasmiðjuskólinn upp á slík námskeið.

Dæmi um námskeið sem boðið er upp á eru: vöruþekkingarnámskeið, stjórnun, samskipti, þjónusta, persónuleg færni, kerfisnámskeið o.fl.

Allir nýir starfsmenn klára nýliðanám í  Húsasmiðjuskólanum sem stuðlar að árangursríkri og öruggri aðlögun nýrra starfsmanna um land allt.

Fagnám í verslun og þjónustu

Við erum stolt að segja frá því að Húsasmiðjan hefur tekið þátt í mótun og uppbyggingu á nýju námi sem heitir Fagnám í verslun. Námið er sérhannað fyrir starfandi verslunarfólk og um er að ræða þriggja anna fjarnám þar sem kenndir eru bæði bóklegir og verklegir áfangar.

Sjá nánar

Fríðindi

Starfsmenn fá að sjálfsögðu sérkjör í verslunum okkar bæði í Húsasmiðjunni, Blómavali og Ískraft ásamt reglulegum starfsmannatilboðum.

Starfsmenn hafa einnig aðgang að íbúð á Akureyri og sumarhúsi í Grímsnesi.

Mannauðsstefna

Velgengni og árangur fyrirtækja veltur ekki hvað síst á mannauðnum sem þar starfar hverju sinni. 

Markmið Húsasmiðjunnar er að fyrirtækið hafi á að skipa, áhugasömu og metnaðarfullu starfsfólki sem sýnir frumkvæði og vilja til þess að taka virkan þátt í að skapa jákvætt og drífandi starfsumhverfi

Sjá nánar hér:

Mannauðsstefna Jafnlaunastefna

Liðsheild

Við leggjum mikla áherslu á liðsheild og góð samskipti, þess vegna tókum við upp Workplace, samskiptaforrit sem tengir okkur öll saman. Við framkvæmum einnig reglulega vinnustðakannanir þar sem m.a. sýna að starfsánægja og liðsheild mælist mjög há hjá okkur.

Starfsmannafélag okkar er öflugt og stendur fyrir ýmsum uppákomum yfir árið og við leggjum mikið upp úr að hafa árshátíðina okkar sem glæsilegasta enda þykir okkur mjög gaman að skemmta okkur saman!

 

Heilsuefling

Við hvetjum starfsmenn til heilsueflingar með ýmsum hætti. Árlega er starfsmönnum boðið upp á bólusetningar gegn inflúensu, íþróttastyrk og samgöngustyrk. Við hvetjum einnig starfsmenn til heilsueflandi verkefna eins og þátttöku í Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna. Fjöldi starfsmanna hjólar daglega til vinnu.

Það er ánægjulegt að segja frá því að árin 2020 og 2021 sigraði fagmannaverslun Húsasmiðjunnar kílómetrakeppnina í átakinu “Hjólað í vinnuna”. Frábær árangur hjá samhentu og kraftmiklu liði!

Viltu slást í hópinn?

Við erum alltaf að leita af hæfileikaríku fólki með fjölbreytta menntun og allskonar reynslu sem vill taka þátt í því að skapa drífandi og skemmtilegt vinnuumhverfi.

Við viljum vera fyrirmyndarvinnustaður!

Við bjóðum upp á lifandi starfsumhverfi og frábæran starfsanda og höfum gaman að því að vera í vinnunni. Við berum virðingu fyrir hvort öðru og fögnum fjölbreytileikanum og leggjum áherslu á að vera sífellt að læra eitthvað nýtt og auka þannig tækifærin á því að þróast í lífi og starfi.

Sækja um starf