Óræktin er líka falleg
Smekkur fólks fyrir gróðri, órækt og garðyrkju er misjafn. Sumir vilja allt skipulagt, klippt og skorið en aðrir eru minna fyrir beinar línur og vel skipulögð beð.
Villtir garðar með innlendum plöntum sem hafa skotið rótum af sjálfsdáðum eru ekki síður fallegir en vel skipulögð rósabeð, og það sem meira er, þeir þurfa minna viðhald.
Íslenskur villigróður er glæsilegur á að horfa, ekki síður en erlendar skrautjurtir. Skærgular sóleyjarbreiður sem loga í sólinni og fífillinn þar sem hann stingur upp kollinum í grasflötinni eða upp á milli gangstéttarhellnanna minnir á sumarið og gróandann. Smárinn angar eins og baldursbráin sem kinkar kolli til allra sem eiga leið hjá.
Margar plöntur sem við í daglegu tali köllum illgresi eru mjög fallegar þegar betur er að gáð og eiga sér skemmtilega og áhugaverða sögu.
Hóffífill er slæðingur sem hefur breiðst út á höfuðborgarsvæðinu síðustu áratugina. Blöðin á stilk og áberandi stór, blómstrar snemma á vorin en blómin standa stutt. Smyrsl sem unnið er úr blöðunum þykja græðandi.
Krossfífill er nýbúi sem slæðst hefur til landsins með manninum. Einær og algengur á höfuðborgarsvæðinu og víðar þar sem hann vex í görðum og á gangstígum. Seyði af jurtinni þykir gott við hitasótt og höfuðverk.
Túnsúra er algeng planta sem ber rauð blóm. Áður fyrr var algengt að nota túnsúru til að bragðbæta grauta eða blöðin borðuð með sykri, olíu eða ediki og þóttu hressandi. Túnsúra þykir góð við harðlífi, ólyst og skyrbjúg.
Túnfífill er algengur um allt land og oft fyrsta og jafnvel eina plantan sem margir þekkja. Á vorin þykja blöðin af fíflinum góð í salat og súpu og einnig eru ræturnar ætar séu þær soðnar í vatni og síðan í mjólk. Fíflablöð eða ætifífill, eins og blöðin eru stundum kölluð, má nota í salat. Á Englandi þótti sjálfsagt að safna fíflablómum skömmu eftir blómgun og brugga úr þeim léttvín eða steikja þau upp úr smjöri og bera fram sem eftirrétt. Eftir blómgun nefnast blómin biðukolla.
Brennisóley er algeng um allt land og vex í margs konar jarðvegi. Hún er stundum notuð í te og haugarfi þykir ágætur í súpur og salat.
Hlaðkolla vex aðallega í hlaðvörpum og við athafnasvæði. Talið er að plantan hafi borist til landsins fyrir röskum hundrað árum og að hún hafi upphaflega fjölgað sér með því að fræið loddi við dekk vöruflutningabíla og skotið rótum þar sem þeir affermdu.
Garðyrkja á að vera til gamans en ekki nauð sem fólk liggur yfir meira af skyldu en ánægju. Vel hirtir garðar eru vissulega augnayndi og áhugasamir garðeigendur hvort tveggja í senn, lista- og fræðimenn þegar þeir raða saman mismunandi litum og vita upp á hár við hvaða aðstæður skal rækta hverja tegund fyrir sig.
Hæfilega hirtir og óhirtir garðar hafa allir sinn sjarma þar sem hinar mismunandi tegundir villtra og ræktaðra plantna blómstra á mismunandi tímum og sumar þeirra standa jafnvel í blóma allt sumarið.
--Vilmundur Hansen.