Íslensk tré og runna í garða og á frístundalóðir
Í íslenskri flóru er að finna nokkrar fallegar trjá- og runnategundir sem rækta má í görðum og við sumarbústaðinn. Tré og runnar sem vaxa af sjálfsdáðum í náttúrunni þola yfirleitt illa að vera fluttir í garða og því borgar sig sjaldnast að taka plöntur úr náttúrunni þar sem þær vaxa.
Sumar plöntur eru friðaðar og óheimilt að raska þeim, skemma eða flytja úr stað. Þeir sem vilja íslenskar tegundir í garðinn ættu frekar að leita til gróðrarstöðva, taka græðlinga eða rækta þær upp af fræi.
Birki (Betula pubescens).
Vaxtarlag birkisins er breytilegt, allt frá jarðlægum og kræklóttum runnum til beinvaxinna trjáa sem hafa náð um 15 metra hæð.
Birkið verður 70 til 100 ára og er nægjusamt en sólelskt tré sem nær bestum þroska í frjósömum jarðvegi og skjóli. Blöðin eru góð í te, gefa gulan lit og fá fallegan haustlit. Birkivendir þóttu ágætir til að hýða óþekk börn.
Úr birki má tappa birkisafa og brugga úr honum birkivín. Tré sem tappa skal safa af verða að vera um 20 sentímetrar í þvermál. Bora skal 10 til 12 sentímetra djúpa holu í tréð, stinga trekt eða röri í gatið og safna safanum í ílát.
Til að brugga 20 lítra af birkivíni þarf til að byrja með 18 lítra af safa, 2 kíló af sykri og ger sem blandað er saman. Þetta er látið standa í tæpa viku. Því næst er 2 lítrum af birkisafa og 2 kílóum af sykri bætt út í.
Blandan er látin gerjast í þrjár vikur áður en gerstoppari er settur út í. Eftir um það bil viku hefur vínið fallið og óhætt er að setja það á flöskur.
Blæösp (Populus tremula). Hægvaxta, einstofna tré sem getur náð 10 til 15 metra hæð. Harðgert, sólelskt tré sem þolir samt nokkurn skugga og þrífst best á skjólsælum stað. Blæöspin er meðal annars skemmtileg fyrir þær sakir að lauf hennar skrjáfar í vindi. Fremur fágæt á landinu, aðeins fimm vaxtarstaðir þekktir. Á hverjum stað vex aðeins einn einstaklingur,klónn, og af því að blæöspin er sérbýlistré,annað hvort karltré eða kventré, eru litlar líkur á að hún geti fjölgað sér með fræfalli hérlendis nema að mannshöndin komi þar til hjálpar. Blæösp er aftur á mói dugleg að breiðast út með rótarskotum, sem auðvelt er að stinga upp og gera að sjálfstæðum trjám.
Einir (Juniperus communis). Íslenski einirinn er eina barrtréð sem vex villt í íslenskri náttúru. Hann er seinvaxinn, sígrænn, jarðlægur eða hálfuppréttur runni. Einir er sólelskur og kann illa við sig í skugga en er nægjusamur á jarðveg. Hentar vel í ker. Könglarnir eða berin dökkblá. Þurrkuð og mulin eru berin sæt á bragðið og þykja gott krydd með villibráð.
Fjallavíðir (Salix arctica). Jarðlægur runni, 10 til 20 sentímetrar á hæð. Algengur um allt land og afar lífseigur. Aldin kvenblómanna eru gráloðin og þekkjast á því frá loðvíði sem hefur snoðin aldin. Tilvalin þekjuplanta innan um grjót.
Fjalldrapi (Betula nana). Algengur um allt um land. Hann líkist smávöxnu birki, enda ættingi þess. Fjalldrapi er hægvaxta, jarðlægur og lágvaxinn runni, 10 til 60 sentímetrar á hæð. Blöðin fá á sig fallegan koparrauðan haustlit. Vex gjarnan í fjallshlíðum eða samfelldum fjalldrapamóum á láglendi og hentar vel í steinhæðir. Harðgerð og nægjusöm planta. Áður fyrr var fjalldrapi notaður sem tróð undir torf í þökum torfbæja því börkur hans fúnar seint og hlífði viðnum undir torfinu. Blendingur af birki og fjalldrapa nefnist skógarviðarbróðir.
Glitrós (Rosa dumalis). 50 til150 sentímetrar á hæð. Greinarnar bogsveigðar eða slútandi. Blómin bleik. Aldinið er kringlótt og rauðleitt. Glitrós er alfriðuð samkvæmt náttúruverndarlögum. Græðlingaplöntur af henni eru af og til fáanlegar í garðplöntustöðvum.
Gulvíðir (Salix phylicifolia). Breytilegur í útliti, ýmist lágvaxinn runni eða margstofna lítið tré. Fær gullgulan haustlit. Þarf nokkra umhirðu til að vera falleg garðplanta. Seyði af víðilaufi eða víðiberki er gott verkjalyf sem þykir styrkja ónæmiskerfið.
Strandavíðir (Salix phylicifolia ‘Strandir’) er ræktunarafbrigði sem komið er út frá gulvíðitré sem óx í heimilisgarðinum í Tröllatungu við Steingrímsfjörð um 1960. Hann er þéttvaxinn, með glansandi, fremur smáum og mjóslegnum laufum. Fínlegur og mjög harðgerður.
Brekkuvíðir (Salix phylicifolia ‘Brekka’) er blaðfallegt afbrigði af gulvíði, kræklóttur runni eða lítið tré. Fremur skuggþolinn og auðveldur í ræktun. Hentar vel í limgerði en er nokkuð maðksækinn, einkanlega sé mikið á hann borið.
Grasvíðir/smjörlauf (Salix herbacea). Smávaxinn og jarðlægur runni, 1 til 10 sentímetrar á hæð. Kvenreklarnir og reklahýðin rauð og áberandi á vorin. Harðgerður og algengur í holtum og móum um allt land. Fallegur í steinhæðir. Þessi lágvaxni runni hefur gengið undir mörgum nöfnum og eiga þau flest það sameiginlegt að lúta að vaxtarlagi hans og því að þetta þótti afbragðs beitarplanta. Nöfnin dvergvíðir og grasvíðir lúta að vaxtarlaginu en nöfn eins og geldingalauf, sauðkvistur, smjörlauf og kostvíðir benda á gildi plöntunnar til beitar. Einnig eru þekkt nöfnin kotúnslauf og kotungslauf.
Hreggstaðavíðir (Salix borealis × Salix phylicifolia ‘Brekka’). Blendingur milli viðju og brekkuvíðis. Ársprotarnir eru gulbrúnir og laufið fagurgrænt. Harðgerður, vindþolinn, hraðvaxta og hentar í skjólbelti. Síðustu ár hefur mjög borið á ásókn ryðsvepps sem gerir runnana fremur ljóta og leiðinlega síðsumars.
Loðvíðir (Salix lanata). Allt frá því að vera jarðlægur og upp í 1,5 til 2 metrar á hæð. Blómstrar snemma á vorin, karlreklarnir með skærgulum og áberandi frjóhirslum. Blöðin loðin á efra og neðra borði. Harðgerður, vind- og seltuþolinn. Inúítar notuðu loðvíði til að lina tannverk, stöðva blæðingar og lina niðurgang.
Reyniviður (Sorbus aucuparia). Ýmist einstofna eða margstofna tré, allt að 15 metra hátt með sléttum berki. Þrífst best í frjóum jarðvegi og ekki of rökum eða þéttum. Blöðin fjöðruð og fá rauðan haustlit. Blómgast hvítum blómum í júní og fær falleg rauð ber á haustin. Þolir ágætlega skugga en er viðkvæmur fyrir reyniátu. Varast ber að gras nái að vaxa að stofni ungra plantna vegna þess að slíkt truflar vöxt þeirra og getur valdið rótarhálsfúa. Verður 60 til140 ára. Berin þóttu góð við þvagblöðrusteini og saft af þeim er sögð þvaglosandi og hægðadrífandi.
Þyrnirós (Rosa pimpinellifolia). Þyrnóttur runni, jarðlægur en getur ná allt að eins metra á hæð. Sjaldgæfur en finnst á nokkrum stöðum á landinu. Blómin hvít, blómstrar í júlí. Aldinið hnöttótt og dökkt. Harðgerð og seltuþolin. Fjölgar sér með neðanjarðarrenglum. Vex í gras- og lyngbrekkum og grýttum fjallshlíðum. Þyrnirós er alfriðuð samkvæmt náttúruverndarlögum.
-- Vilmundur Hansen.