Vetrardvali plantna
Plöntur beita mörgum og ólíkum aðferðum til að lifa veturinn af. Einærar
plöntur lifa af sem fræ. Séu aðstæður óhagstæðar geta fræ sumra tegunda legið í
dvala árum saman en að jafnaði spíra fræin að vori, vaxa upp og blómstra og
mynda fræ sem fellur að hausti. Tvíærar plöntur safna forða í rótina á fyrra ári
og rótin lifir veturinn af. Á öðru ári blómstrar plantan og myndar fræ.
Fjölærra plöntur og laukjurtir vaxa upp að vori, vaxa og dafna yfir sumarið,
safna forðanæringu í rótina eða laukinn, sölna að hausti og lifa í dvala
neðanjarðar yfir veturinn. Þar sem snjór liggur eins og teppi yfir jarðveginum
eru plönturnar vel varðar fyrir umhleypingum og grasbítum sem byggja
lífsafkomu sína á þeim yfir veturinn.
Tré og runnar sölna ekki á haustin og þurfa því að beita öðrum ráðum til að lifa
veturinn af. Sum tré eru sumargræn en önnur græn allt árið. Lauf sígrænna trjáa
nefnist barr, er yfirleitt langt og mjótt og með vaxhúð sem dregur úr útgufun.
Fyrir lauffall á haustin draga lauftré blaðgrænuna úr blöðunum og senda niður í
rótina til geymslu, rétt eins og hagsýnir heimilishaldarar safna vetrarbirgðum í
búrið sitt. Blaðgrænan er byggð upp af efnum sem trén eiga ekki greiðan aðgang
að og þurfa að eyða mikilli orku í að framleiða. Eftir í blöðunum verða efni sem
trén hafa minna fyrir að búa til. Efnin sem eftir verða eru gul eða rauð og eru
ástæðan fyrir því haustlitur trjánna er yfirleitt í þeim litum.
Munið eftir smáfuglunum í vetur.
- Vilmundur Hansen.