Trjáfræ og sáning
Trjáfræ og sáning
Trjáfræ eru mjög mismunandi að lögun og stærð. Sumar plöntur til dæmis myndar ösp fræ með svifhárum en aðrar tegundir eins og garðahlynur fræ sem hafa vængi. Til eru fræ með krókum og fræ sem er svo smátt að aðeins er hægt að greina það í smásjá.
Fjöldi fræja sem mismunandi tegundir plantna ná að þroska er breytilegur. Eftir því sem fræin eru smærri eru þau yfireitt fleiri. Sumar tegundir þroska sárafá fræ en hjá öðrum geta þau skipt milljónum.
Lítil fræ berast oft með vindi og eru birkifræ dæmi um það. Önnur, til dæmis, fræ trjáa sem vaxa við árbakka, berast með vatni. Enn önnur berast með dýrum. Þá festast fræin í feldinum eða fara í gegnum meltingarveginn og eru fræ reyniviðar dæmi um það. Stundum þeyta plöntur fræjum langar leiðir með því að spenna aldinið og sleppa síðan fræjunum skyndilega.
Vitað er um ríflega 30 innfluttar trjátegundir sem hafa borið þroskað fræ hér á landi og hafa nokkrar þeirra sáð sér í íslenska náttúru.
Vanda þarf allan undirbúning að sáningu ef spírun á að takast. Útvega skal sáðbakka, blómapott, sáðmold, merkipinna, vatnskönnu og vatn, og síðast en ekki síst gott fræ. Moldin er sett í ílátið og þess gætt að yfirborð hennar sé um 2 sentímetra fyrir neðan brún, til þess að vatn renni ekki úr því þegar vökvað er. Það tekur fræ trjáplantna yfirleitt nokkuð langan tíma að spíra of getur það tekið furur nokkur ár.
Fræi á ekki að sá dýpra en sem nemur tvöföldu þvermáli þeirra og lítil fræ á einungis að hylja með þunnu jarðvegslagi. Fræjunum er dreift jafnt um í ílátið og vökvað hæfilega. Ofvökvun gerir sama ógagn og of lítil vökvun. Ílátinu með fræjunum skal komið fyrir á hlýjum stað.
- Vilmundur Hansen