Rósir dafna best í skjóli og á sólríkum stað. Jarðvegurinn þarf að vera djúpur, næringarríkur, vel framræstur og jafnvel þurr. Heppilegt sýrustig fyrir rósir er á bilinu 5,5 til 6,0. Bil á milli rósa fer eftir stærð þeirra en hæfilegt bil á milli runnarósa er 80 til 100 sentímetrar svo rósirnar fái að njóta sín.

Gott er að bleyta rótina vel fyrir gróðursetningu og ef um ágrædda rós er að ræða þarf að planta henni þannig að ágræðslustaðurinn sé um 10 sentímetrar ofan í jörðinni.

Ekki er ráðlagt að bera mikið á rósir í einu heldur dreifa áburðargjöfinni yfir vaxtartímabilið, gefa lítið í einu og helst að nota lífrænan áburð.

Viðkvæmar rósir þurfa gott skjól yfir vetrarmánuðina og því getur þurft að pakka þeim inn í striga eða akrýldúk. Einnig er hægt að rækta viðkvæmar rósir í potti og flytja þær í skjól yfir veturinn.

Ágræddar skúfrósir og stórblómstrandi rósir þarf að klippa reglulega svo þær blómstri kröftuglega. Ef rósir eru klipptar mikið niður verða blómin færri og stærri. Best er að klippa um það leyti sem brumin byrja að þrútna. Velja skal hraust og kröftug brum og klippa rétt ofan við þau. Með réttri klippingu má stjórna vaxtarlagi plöntunnar. Hæfilegt er að skilja eftir 6 til 8 greinar og klippa þær í 20 til 30 sentímetra hæð.