Pottaplöntur og vökvun

Umhirða pottaplantna er mörgum lítið mál en bölvað bras fyrir aðra. Í ófáum tilfellum er það vökvunin sem vefst fyrir fólki.

Flestar pottaplöntur drepast vegna rangrar vökvunar, þær eru annað hvort vökvaðar of mikið eða of lítið. Ekki er til nein ákveðin regla um það hvenær á að vökva því þættir eins og tegund, stærð potta, birta og hitastig hafa allir áhrif.

Í grófum dráttum má segja að blómstrandi plöntur þurfi meira vatn en blaðplöntur og blaðplöntur meira vatn en kaktusar.

Einnig er regla að vökva pottaplöntur minni í skammdeginu en á sumrin.

Séu plönturnar látnar standa í vatni er hætt við að ræturnar rotni og ef vökvun er spöruð um of þorna þær upp. Ein besta leiðin til að meta hvort þurfi að vökva er að skoða moldina. Litur og áferð moldarinnar segir mikið um rakastig hennar. Þurr mold er ljósari en blaut og hún á það til að losna frá brún potta.

Vatnsskortur sést greinilega á plöntum þegar blöðin fara að hanga og þær verða slappar.

Venjulegt kranavatn hentar prýðilega en gott er að setja í það áburð annað slagið, sérstaklega á vorin og sumrin. Gætið þess að vatnið sé volgt svo að ræturnar ofkólni ekki.

Hvort sem er má vökva ofan á moldina eða í skálina sem potturinn stendur í. Með því að vökva neðan frá er tryggt að moldin blotni í gegn. Góð leið til að vökva er að fylla fötu af vatni og dýfa plöntunum ofan í. Þegar moldin er orðin blaut í gegn þarf potturinn að fá að standa í smátíma svo umframvatn renni burt áður en potturinn er settur á sinn stað. Einnig verður svo að gæta þess að tæma undirskálina svo ræturnar standi ekki í vatni.

- Vilmundur Hansen.