Pottaplöntur - birta, hita- og rakastig

Allar plöntur þurfa birtu til að vaxa og dafna. Sumar þurfa mikla birtu en aðrar þrífast best í hálfskugga. 

Blómstrandi plöntur sem ekki fá næga birtu fá gul blöð, vaxtarsprotarnir verða langir og mjóir og blómin litlaus. 

Blómstrandi plöntur þurfa mikla birtu en ekki beina sól og ættu því að standa í gluggum sem snúa í austur eða vestur. Gluggar sem snúa í suður henta best fyrir kaktusa og þykkblöðunga. 

Þar sem birta er lítil er alltaf hægt að grípa til lýsingar og setja upp sérstakar perur sem gefa frá sér blárri birtu en við eigum að venjast. Þeir sem nota gróðurperur verða að gæta þess að perurnar séu í um tíu sentímetra fjarlægð frá blómunum því annars teygja þau sig of mikið átt að ljósinu og verða veikluleg. 

Plöntur með stór blöð, eins og t.d. rifblaðka, eru með mikið yfirborð og þola því meiri skugga en plöntur með lítil blöð. Gott er að snúa pottaplöntum annað slagið þannig að sama hliðin snúi ekki alltaf af birtunni.

Hentugt hitastig fyrir flestar pottaplöntur er á bilinu 18 til 24° C á daginn en 13 til 16° C á nóttunni og það á að vera lægra á veturna en sumrin vegna lítillar birtu.

Æskilegur loftraki fyrir pottaplöntur er á bilinu 40 til 60% en það er nánast ómögulegt að halda svo háu rakastigi á venjulegum heimilum. Því er nauðsynlegt að úða reglulega yfir blóm eins og orkideur, burkna og gardeníur sem þurfa mikinn loftraka. Skálar með vatni gera mikið gagn séu þær látnar standa nálægt blómunum og svo er einnig hægt að koma sér upp rakatæki ef mikið liggur við. Svo má einnig rækta rakakær blóm í eldhúsinu eða á baðherberginu. 

- Vilmundur Hansen.