Plantað í ker

Hægt er að fá margar og fjölbreytilegar gerðir af ílátum undir blóm, til dæmis útipotta, tunnur, körfur og ker úr plasti eða leir. Einnig er boðið upp á gott úrval hengipotta, plast, bast og leir og svalakassa. 

Það sem einna helst þarf að gæta að við val á útikeri er að það þoli frost ef það á að standa úti yfir veturinn. 

Sömu reglur gilda um jarðveg í keri og beði, það verður að vinna hann vel og gæta þess að frárennsli sé gott. Ef ekki er gat á kerinu er nauðsynlegt að setja lag af grófu efni, til dæmis grófan vikur, smásteina eða leirkúlur, í botninn þar sem afrennslisvatn getur safnast fyrir án þess að ræturnar fúni. Þetta á sérstaklega við ef kerið stendur undir berum himni. Ker sem stendur á þurrum stað þarf aftur á móti að vökva reglulega.

Yfirleitt eru sumarblómin smá þegar þeim er plantað út á vorin en þau stækka yfir sumarið og því er hæfilegt að planta þeim með 10 til 12 sentímetra millibili. Stórgerðar plöntur eins og pelargóníur og margarítur þurfa aftur á móti meira pláss. Kerið kann því að virðast tómlegt til að byrja með en gróðurinn þéttist fljótt. 

Hægt er að setja allar tegundir sumarblóma í ker. Stjúpur, skrautnálar, flauelsblóm og silfurkambur njóta alltaf mikilla vinsælda en það er ekkert sem mælir gegn því að planta hádegisblómum, nellikum, fagurfíflum, pelargóníum og tóbakshorni. Einnig getur verið fallegt að planta hengijurtum eins og brúðarauga, skjaldfléttu eða hengitóbakshorni út við jaðra kersins og láta plönturnar flæða yfir barmana.

Þeir sem eru hagsýnir geta plantað matjurtum í kerin. Blöð ýmissa matjurta geta verið mjög falleg, til dæmis á kartöflum, rófum, hnúðkáli, beðju, salati, steinselju og grænkáli. Það má einnig búa til lítinn kryddjurtagarð í kerinu og planta í það rósmaríni, sítrónumelissu, myntu eða öðrum tegundum kryddjurta.

  • Vilmundur Hansen.