Orðskýringar í garðyrkju
Í garðyrkju líkt og öðrum fögum eru notuð faghugtök sem erfitt getur að átta sig á og hæglega gata ruglað fólk í ríminu. Hver er til dæmis munurinn á klón og kvæmi, blendingi og deilitegund?
Ætt (Familia): Flokkur lífvera sem hafa þróast frá sömu forfeðrum og búa yfir ýmsum sameiginlegum eiginleikum.
Ættkvísl (Genus): Náskyldar tegundir innan sömu ættar eru flokkaðar í ættkvíslir. Til dæmis eru allar víðitegundir af ættkvíslinni víðir (Salix) og allar aspartegundir af ættkvíslinni ösp (Populus) en báðar ættkvíslirnar eru af víðiættinni (Salicaceae).
Tegund (Species): Plöntur sem eru í meginatriðum eins að gerð og gera sömu kröfur til umhverfisþátta. Æxlast innbyrðis.
Blendingur/Bastarður (Hybrida): Planta sem orðið hefur til við samæxlun tveggja skyldra tegunda.
Deilitegund (Subspecies): Hópar innan sömu tegundar sem hafa þróast í sína áttina hver og eru sums staðar vel aðgreinanlegir, en t.d. þar sem útbreiðslusvæði þeirra mætast eru tæpast nokkur skil á milli þeirra.
Klónn (Clon): Einstaklingur sem fjölgað er kynlaust og allir afkomendur eru sömu arfgerðar og móðurplantan.
Kvæmi (Proveniens): Plöntur frá ákveðnum og tilgreindum söfnunarsvæðum og hafa sameiginlega aðlagast umhverfisþáttum svæðisins. Einnig nefnt staðbrigði.
Afbrigði (Varietas): Einn eða fleiri einstaklingar sem eru lítillega frábrugðnir tegundinni.
Forma (f): Tilbrigði við tegund.
Yrki (Cultivar): Afbrigði sem valið hefur verið til ræktunar vegna sérstakra eiginleika, svo sem mikillar uppskeru, bragðgæða eða blómfegurðar.
-- Vilmundur Hansen.