Ættkvíslin Alocasia sem kallast nykurblað á íslensku telur um 90 þekktar tegundir, fjölærra og stórblað hnýðisjurtir, sem upprunar eru í Suðaustur Asíu og austanverðri Ástralíu. Auk þess sem fjöldi yrkja er í ræktun. 

Blöð tegunda innan ættkvíslarinnar eru sígræn og standa á löngur blaðstilk. Stór, formfögur, áberandi hjarta- eða örvarlaga. Oft tvílit, sérstaklega á ræktunaryrkjum. Vegna stærðar blaðanna kallast tegundir innan ættkvíslarinnar víða fílseyra.

Blómin eru lítið áberandi kólfur og plantan aðallega ræktuð vegna blaðfegurðar. Sumar tegundir eru ætar en aðrar eitraðar.

Sebraleggur eða sebranykurleggur, Alocasia zebrina, finnst villt á nokkrum eyjum í regnskógum sem tilheyra Filippseyjaklasanum og flokkast þar sem tegund í útrýmingarhættu. Slíkt gildir ekki um tegundina í ræktun. Í náttúrulegum heimkynnum sínum getur plantan náð um þriggja metra hæð en yrki í ræktun eru yfirleitt lágvaxnari. 

Blaðstikur sebraleggs heima í stofu er yfirleitt tæpur metri að lengd og með áberanandi sebramunstri. Blöðin stór, dökkgræn, leðurkennd og örvarlaga. 

Sebraleggur og aðrar nykurblaðstegundir eru fremur auðveldar í ræktun og launa vel gott atlæti en þola ekki beina sól og kjósa bjartan stað fjarri miðstöðvarofni. 

Dafnar best í þröngum potti og í jarðvegi með gott afrennsli og gæta verður þess að ofvökvar plöntuna. Blaðstilkurinn geymir vatn vel og neðanjarðarhlutinn getur fúnað standi hann í síblautum jarðvegi. 

Gott að úða reglulega kringum plöntuna og undirvökva með volgu vatni og gefa skal henni daufa áburðarlausn á hálfsmánaðar fresti yfir sumartímann en vökva minna í skammdeginu. Æskilegt að snúa henni annað slagið til að öll blöðin njóti jafnrar birtu. 

Sebrablað er planta sem endurnýjar blöðin reglulega og því ekkert óeðlilegt við að gömul blöð visni og detti af. Við réttar aðstæður koma fljótlega ný í staðinn.

Breski garðyrkjumaðurinn, landkönnuðurinn og plöntusafnarinn John Gould Veitch var fyrsti Evrópumaðurinn til að lýsa plöntunni árið 1862 og taka hana í ræktun.

  • Vilmundur Hansen