Mosinn í garðinum

Ein af þeim klassískum spurningum sem garðyrkjumenn fá er hvernig er hægt að losna við mosann úr grasflötinni og af hellunum.

Því miður er ekkert eitt töfraráð til gegn mosa. Mosi þrífst best í raka, skugga og í súrum og áburðarsnauðum jarðvegi. Til að koma í veg fyrir að mosi vaxi í garðinum þarf helst að koma í veg fyrir að þannig aðstæður myndist.

Um þessar mundir eru mosar í miklum vexti á undan frestum öðrum tegundum. Þeir nýta sólarljósið áður en þeir lenda í skugga af hávaxnari plöntum og eru því í fullum vexti núna og mjög áberandi.

Skuggi, raki, súr jarðvegur og lítil næring
Sé skuggi af trjám verður að grisja til að hleypa sólarljósi niður í grasflötina svo að grasið fái sól.

 

Þar sem raki er mikill í jarðvegi verður jafnvel að ræsa garðinn eða hækka.

Sé jarðvegurinn súr þarf að kalka hann.

Til þess að bregðast við næringarskorti er nauðsynlegt að bæta næringarefnum í flötina. Dreifa skal áburðinum jafnt yfir þrisvar sinnum með jöfnu millibili yfir sumarið.

Sláttur

Með því að slá grasið of snöggt ná grasplönturnar ekki kröftugum vexti með kröftugu rótakerfi og því er ráðlegt að stilla sláttuvélina á efstu stillingu ef mikill mosi er í garðinum. Gæta verður þess að raka slægjuna burt því annars rotnar hún í sverðinum.

 

Mosaeyðir                                                                          Hægt er að fá efni, mosaeyði, til að eyða mosanum. Notist samkvæmt leiðbeiningum á umbúðunum.

Mosi á hellum
Besta leiðin til að losna við mosa af hellum er að skrapa hann af með vírbursta.

Efni sem kallast Undri garðahreinsir hefur reynst vel til að eyða mosa af hellum og garðhúsgögnum. Efninu er úðað á flötinn sem hreinsa skal og dreift með kústi eða svampi. Efnið er látið liggja í þrjár til tíu mínútur og síðan skolað af með vatni.

Samantekt - Góð ráð gegn mosa

  1. Tætum, rökum eða klórum mosann í grasflötinni
    2. Berum grasáburð á grasflötina
    3. Berum turbokalk á grasflötina
    4. Sáum grasfræi í sárin
    5. Gott að blanda grasfræi saman við úrvals gróðurmold áður en sáð er
    6. Græn og falleg grasflöt fæst eftir 2 til 3 vikur 

- Vilmundur Hansen.