Mánagullið hennar ömmu

Mánagull er ein af þessum fallegu ömmuplöntum sem voru algengar á heimilum fyrir nokkrum áratugum og er að koma sterk inn aftur enda falleg og harðgerð pottaplanta sem þarf litla umhirðu. 

Jurtin sem á latínu kallast Epipremnum aureum eða Scindapsus aureus er upprunnin í Suðaustur Asíu en hefur lengi verið ræktuð sem pottaplanta á heimilum og stofnunum. Annað íslenski nafn sem notað hefur verið um mánagull er nornaflétta en það heiti er fáheyrt.

Blaðfalleg planta með óreglulega grængulum blöðum og gulleitum stönglum sem geta hæglega orðið tveir metrar að lengd. Til að þétta vöxt jurtarinnar má klippa stöngulinn við blaðöxl. Blómstrar sjaldan eða alls ekki í ræktun og því ræktuð vegna blaðfegurðarinnar. Mánagull myndar loftrætur sem ekki á að klippa burt. 

Mánagull er klifurplanta sem hentar vel í hengipott eða þá að láta hana klifra upp eftir mosasúlu. Kjörhiti jurtarinnar er 13 til 21° á Selsíus og hún þrífst þokkalega í hálfskugga en best í björtum stað en ekki í beinni sól.