Lífið í moldinni

Allir sem leggja stund á ræktun vita hversu nauðsynlegt er að jarðvegurinn sem ræktað er í sé góður og henti plöntunum sem í honum vex. Smádýrin og aðrar lífverur í jarðvegi eru ekki síður nauðsynleg til að plönturnar okkar vaxi og dafni.

Í jarðvegi er urmull smárra lífvera sem bæta hann með starfsemi sinni. Jarðvegsdýrin umbreyta lífrænum leifum, kljúfa torleyst efnasambönd og breyta þeim í það form sem plöntur geta nýtt.

Plöntur af ertublómaætt lifa í sambýli við rótargerla sem framleiða nitur eða köfnunarefni úr andrúmslofti. Þegar gerlarnir drepast og rotna losnar nitrið út í jarðveginn, plöntunum til góðs.

Á rótum ýmissa trjátegunda lifa sveppir í samlífi við trén. Samlífi róta og sveppa nefnist svepprót og er fólgið í næringarefnaskiptum. Sveppirnir sjá trénu fyrir steinefnum en tréð sér sveppunum fyrir lífrænum næringarefnum.

Á Íslandi finnast að minnsta kosti tíu tegundir ánamaðka. Þeir nærast á rotnandi leifum plantna og smásæjum jarðvegsdýrum. Ánamaðkurinn grefur göng í moldinni og í frjósömum jarðvegi eru þeir margir. Rætur plantnanna fylgja oft ánamaðkagöngunum, þær vaxa eftir þeim og nýta sér næringarefni í ánamaðkasaur og slími sem þekur göngin.

- Vilmundur Hansen.