Krydd í tilveruna
Sólin er komin hátt á loft og því upplagt að sækja sér nokkra kryddplöntur
til að lífga upp á gluggasilluna eða garðinn.
Aldagömul hefð er fyrir ræktun kryddjurta. Munkar ræktuðu þær í
klausturgörðum, grasakonur suðu úr þeim seyði og nú til dags rækta margir
krydd sér til skemmtunar. Kryddjurtir bæta bragð matarins og margir trúa að þær
hafi lækningamátt.
Garðablóðberg/timjan (Thymus praecox) er hálfrunni sem nær 10 til 30
sentímetrar hæð. Blómin purpurarauð. Til eru fjölmörg yrki af blóðbergi og eitt
þeirra er með sítrónukeim.
Talið er að Súmerar, sem voru uppi 3.500 árum fyrir Krist, hafi notað timjan
sem krydd og til lækninga. Rómverjar töldu plöntuna örva kynhvötina og á
miðöldum var timjan tengt ástleitni.
Lavender/lofnarblóm/ilmvöndur (Lavandula angustifolia). Sígrænn runni.
Blöðin grágræn og ilmsterk, blómin purpurarauð. Þarf skjólgóðan og sólríkan
stað. Fer best í potti.
Uppruni frá löndunum í kringum Miðjarðarhafið. Laufblöðin notuð í krydd.
Blómin ilma vel og eru oft sett í fataskápa til að draga úr fúkkalykt.
Rósmarín (Rosmarinus officinalis). Sígræn jurt sem nær tveggja metra hæð í
náttúrulegum heimkynnum sínum við Miðjarðarhaf. Blöðin oddmjó og blómin
blá. Ilmsterk. Sáð inni í björtum glugga í febrúar, eins má kaupa stálpaðar
plöntur á vorin. Þrífst best í potti á þurrum stað og rýr jarðvegur hentar
rósmaríni ágætlega. Gott með öllu kjöti og villibráð.
Rósmarín var tákn tryggðar hjá Forn-Grikkjum og ofið í brúðarvendi og brennt
sem reykelsi. Það er sagt örva minnið og hugsun. Virkar á höfuðverk og spennu.
Á miðöldum var plantan notuð sem jólaskraut í Evrópu.
Ofangreindar kryddjurtir eru allar þokkalega harðar og geta bæði blóðberg og
lavender lifað veturinn af á góðum stað í garðinum en rósmarín þolir ekki frost
og því best að taka inn fyrir frost.
Allar kjósa þær sandblendinn jarðveg og mikla sól.
- Vilmundur Hansen.