Þægilegasti tíminn til að klippa limgerði er snemma á vorin og fram að laufgun eða á meðan greinarnar eru lauflausar og sjáanlegar. Klipping á sumrin er meira snyrting en stórklipping.

Hversu stíft limgerði eru klippt fer eftir vaxtarlagi plantnanna sem í því eru. Limgerði með birki, reyni, toppum, misplum, alparifsi eða víði getur verið fallegt að klippa mikið og nánast eftir reglustiku. Limgerði úr fjallarifsi, kvistum og roðaberi er aftur á móti fallegt að láta vaxa frjálslegar og eilítið villt.

Limgerði, sem eru breiðust að neðan og mjókka eftir því sem ofar dregur, eru það sem er kallað A-laga og besta formið. Lögunin tryggir að sól skín á allar greinarnar og dregur úr hættu á að snjór sligi þær.

Mjó og nett limgerði, sem eru 50 til 60 sentímetra að neðan og mjókka upp í topp, veita alveg jafnmikið skjól og breið og fyrirferðarmikil limgerði.

Almennt veita limgerði skjól fyrir vindi sem nemur tíu sinnum hæð þeirra.

Gömul og gisin limgerði ýmissa tegunda má endurnýja með því að klippa þau rækilega niður að vori og skilja eftir 15 til 20 sentímetra stubba. Víðir, fjallarifs, blátoppur og gljámispill þola svona klippingu vel en fara verður gætilega með aðrar tegundir til dæmis birki, sem alls ekki þolir niðurstýfingu.

Gott er skilja eftir þrjár til fjórar greinar svo að plantan eigi auðveldara með að endurnýja sig. Þær eru síðar fjarlægðar eftir tvö til þrjú ár þegar limgerðið hefur náð sér á strik.

 - Vilmundur Hansen.