Hægt er að lengja sumarið með því að skipta sumarblómunum út fyrir harðgerðar haustplöntur, t.d. litríkt lyng eða sígræna sýprusa. Haustplöntum er hægt að planta í ker eða beint út í beð, allt eftir aðstæðum.

Allar þessar plöntur standa fram í frost og margar geta lifað veturinn af sé þeim skýlt og þær vökvaðar reglulega í þíðu.

Beitilyng (Calluna vulgaris). Setur svip sinn á móa og melabörð víða um land síðla sumars. Kýs þurran og súran jarðveg. Blómstrar rauðum, bleikum eða hvítum blómum á haustin og er til í mörgum litaafbrigðum. Hvítt beitilyng er sagt veita gæfu. Í hverju blómi beitilyngs geta myndast 30 örsmá fræ og vegna þess hve mörg blómin eru getur meðalstórt beitilyng myndað um 150.000 fræ á einu sumri. Blöðin verða rauðbrún á veturna. Nafnið beitilyng vísar til þess að plantan þótti góð til beitar. Allt frá fornöld voru blóm beitilyngs notuð til að bragðbæta öl.

Í eina tíð voru vendir beitilyngs bundnir saman og búnir til úr þeim kyndlar eða sópar. Beitilyngsvendir geta líka staðið árum saman sem stofuskraut án þess að tapa lit. Þar sem mikið óx af beitilyngi þótti gott að hafa það undir undirsængunum í rúmfletum fyrri á tíð.

Klukkudeslyng (Gaultheria procumbes). Sígrænn, lágvaxinn runni sem er skyldur eriku og beitilyngi. Innan ættkvíslarinnar Gaultheria eru 170 til 180 tegundir sem eru frá 10 sentímera runnum og upp í 6 metra há tré. Klukkudeslyngið sem þekkt er hér er lágvaxið, um 10 sentímetrar  á hæð, og með fallegum grænum blöðum. Blómin hvít og bjöllulaga og aldinið rautt ber. Þrífst best í potti eða keri en er lifir ekki veturinn af utandyra. Berin á klukkudeslyngi eru æt og minnir bragðið á þeim á gömlu Wrigleys spearmint tyggjóplöturnar í hvítu pökkunum. Ekki er ráðlegt að borða mikið af berjunum í einu því að í miklu magni geta þau valdið niðurgangi.

Silfurkambur (Senecio cineraria). Aðallega ræktaður sem einært sumarblóm. Blöðin marggreind, grá eða silfurlit og með flauelskenndri áferð. Plantan harðgerð og lifir veturinn iðulega af. Blómstrar sinnepsgulum blómum. 15 til 25 sentímetra há hér en 50 til 80 sentímetra hár hálfrunni í heimkynnum sínum við Miðjarðarhafið. Dafnar best á þurrum stað og er mikið notuð í bryddingar.

Skrautkál (Brassica oleracea var. acephala). Blaðfallegt kál sem er ræktað vegna litarins, grænt með hvítu eða rauðu, og lögunar blaðanna sem geta verið slétt eða krulluð. Höfuðið laust í sér. Stendur lengi fram á haust. Getur náð 30 sentímetra hæð. Fallegt í blómaker eitt og sér eða með öðrum haustplöntum. Harðgert og þolir nokkurt frost. Bragðgott og verður sætara ef það frýs. Fallegt í salat.

Sýprus (Chamecyparis). Sígræn tré og viðkvæm fyrir umhleypingum. Þrífast best í hálfskugga og á skjólgóðum stað. Hér eru sýprusar aðallega notaðir sem haust- og vetrarplöntur í kerum. Geta lifað veturinn af sé þeim skýlt fyrir vorsólinni eða þeir hafðir norðanmegin við hús. Úr ýmsum yrkjum er hægt að velja, vegna litar og vaxtarlags.

Vírkambur (Calocephala brownii). Í upprunalegum heimkynnum sínum, Ástralíu, er vírkambur lágvaxinn og kúlulaga sígrænn runni með silfurlitaðar greinar. Greinabyggingin minnir helst á víraflækju en blómin eru hvít eða gul. Plantan er salt- og vindþolin í heimkynnum sínum og hefur lifað veturinn af hér.

- Vilmundur Hansen.