Grasið í garðinum eru oft þær plöntur í garðinum sem fær hvað minnsta athygli og margir standa í þeirri trú að gras vaxi af sjálfu sér og þurfi litla sem enga umhirðu en þannig er það samt ekki.

Til að fá fallega grasflöt þarf að sinna henni af alúð. Flestar grastegundir eru ljóselskar og þrífast illa í skugga. Helstu kostir grassins er að það þolir nokkurt traðk, er mjúkt undir fæti og endurnýjar sig sjálft. Gras hefur góða lykt og fallegan lit en grasgræna næst illa úr fötum.

Hér á landi eru aðallega tvær grastegundir notaðar í grasflatir, vallarsveifgras (Poa pratensis) og túnvingull (Festuca rubra). Þriðja tegundin, vallarrýgresi (Lolium perenne), eða enskt rýgresi eins og það er stundum kallað, fylgir stundum með við sáningu. Í fræblöndum er þessum tegundum oft blandað saman í hlutfallinu 50% vallarsveifgras, 40% túnvingull og 10% vallarrýgresi.

Eigi flötin að þola ágang þarf hlutfall vallarsveifgrass að vera hærra, en fyrir skuggsæla staði á að vera meira af túnvingli. Þeir sem eru latir við að kantskera ættu að nota meira af túnvingli þar sem hann skríður minna.

Vallarrýgresi er fljótt til og þekur vel og því gott til að ná þekju á fyrsta sumri. Hlutfall þess má þó ekki vera mikið, það er viðkvæmt og deyr yfirleitt á fyrsta eða öðrum vetri og skilur eftir sár hafi verið notað of mikið af því.

- Vilmundur Hansen

"Hér á landi eru aðallega tvær grastegundir notaðar í grasflatir, vallarsveifgras og túnvingull"