Grænn kúbismi

Formklipping trjáplantna á sér langa sögu erlendis þótt ekki sé vitað hver byrjaði fyrstur á þeirri iðju. Listin að forma plöntur í myndir er grein af sama meiði og þegar menn höggva skúlptúr í grjót. Ólíkt grjóti eru plöntur lifandi og síbreytilegar og myndin vex úrsér ef henni er ekki haldið við.

Plöntur sem henta til formklippinga þurfa að vera fljótsprottnar, blaðsmáar, þéttar og þola klippingu. Erlendis eru ýmsar tegundir af sígrænum trjám og runnum sem henta vel til formunar en hér á landi er úrval þeirra takmarkað. Vel má notast við, lífvið, sýprus og ývið við góð skilyrði. Himalajaeinir er að öllum líkindum harðgerðasta sígræna plantan hér á landi sem hægt er að forma til á þennan hátt.

Brekkuvíðir og aðrar laufsmáar plöntur, eins og birki, gljámispill, fjallarifs, blátoppur, rauðtoppur og kvistur, ættu einnig að henta vel.

Auðveldasta leiðin til að ná formi er að kaupa ungar plöntur og setja yfir þær vírnet sem búið er að forma til í þá mynd sem ætlunin er að skapa.

Netið er fest í jörðina utan um smáplönturnar og greinarnar klipptar þegar þær hafa vaxið um það bil tommu út fyrir möskva netsins. Með þessari aðferð má móta nánast hvaða form sem er. Einfaldast er samt að búa til ferhyrninga, kúlur og þríhyrninga og skapa þannig kúbískform í garðinum áður en farið er út í flóknari form.

Myndin er fullgerð þegar greinar og lauf hafa hulið netið að fullu. Þegar réttu formi er náð þarf að sinna listaverkinu af alúð svo að það haldi þeirri lögun sem ætlast er til.

 - Vilmundur Hansen.