Garðurinn er vin þar sem gott er að slaka á og njóta lífsins. Slysin gera þó
ekki boð á undan sér og hugsanlega er slanga í paradís sem liggur
sakleysislega í grasinu og bíður þess að einhver hrasi um hana.

Á hverju ári slasast fjöldi fólks í görðum sínum. Í flestum tilfellum er hægt
að koma í veg fyrir slys með því að sýna fyrirhyggju, hugsa verkin til enda
og nota réttu verkfærin á hverjum tíma í stað þess að æða í verkið eins og
berserkur af fullum krafti.

Flest ef ekki öll verkfæri sem venjulegur garðeigandi notar geta valdið
skaða sé ekki rétt með þau farið og gengið frá þeim eftir notkun.
Garðslanga, hrífa eða skófla sem liggur í grasinu getur valdið slysi, margir
hafa hrasað um slík verkfæri og jafnvel handleggsbrotnað við fallið.

Hand- og limgerðisklippur geta hæglega skaðað þann sem verkfærið
notar, hvað þá aðra, ef ekki er varlega að farið. Þeir sem nota öflugar
rafmagnsklippur og keðjusagir ættu að venja sig á að nota réttan
öryggisbúnað eins og heyrnarhlífar, öryggisgleraugu, skó með stáltá,
hlífðarbúning og vettlinga sem passa. Gætið þess að slökkva alltaf á
tækjunum eða taka þau úr sambandi ef það þarf að hreinsa blaðið eða
keðjuna.

Beittur hnífur er gott verkfæri sem oft er þörf á að nota við garðverkin en
um leið er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hættunni sem af honum
getur stafað. Látið aldrei óvarinn hníf liggja á glámbekk þar sem hann
getur valdið slysi. Þegar hníf er beitt skal eggin ávallt vísa frá líkamanum.

Öflugar sláttuvélar og vélorf geta hæglega þeytt frá sér steinum eða öðru
sem liggur í grasinu og geta slíkir hlutir valdið skaða verði einhver fyrir
þeim. Slyngir sláttumenn eru með heyrnarhlífar, hlíf fyrir andlitinu og í

góðum skóm þegar þeir slá með orfi. Þeir gæta þess einnig að drepa á
sláttuvélinni áður en hún er hreinsuð og orfinu áður en þeir lengja í
sláttuþræðinum.

Ef nota þarf stiga til að snyrta tré eða mála hús á hann að vera vandaður
og traustur. Það er ekkert grín að missa fótanna og detta úr háum stiga
og margir hafa hlotið varanlegan skaða við slíkt fall. Gæta skal þess að
stiginn standi fastur á jafnsléttu og er æskilegur halli eða vinkill á
stiganum um 23 gráður, en þannig stendur hann best. Standi stiginn við
tré er gott að binda efsta þrepið á honum við stofn trésins svo hann verði
stöðugri. Einnig er æskilegt að einhver styðji við stigann á meðan verið er
að vinna í honum. Í sumum tilfellum getur borgað sig að leggja stiganum
og setja upp stillansa til að auka öryggið enn frekar.

Sé tjörn eða heitur pottur í garðinum skal gæta þess að potturinn sé
lokaður þegar hann er ekki í notkun og tjarnir verða að vera þannig
hannaðar að börnum stafi ekki hætta af þeim.

Þeir sem kjósa að nota illgresis- og skordýraeitur verða að gæta sín
sérstaklega og nota gúmmíhanska, öndunargrímu og hlífðargleraugu
þegar efnin eru blönduð og hlífðargalla að auki þegar þeim er úðað.

Að lokum er vert að minna á að hætturnar geta leynst víða, sérstaklega ef
um ung börn er að ræða. Gott er að hafa vel búinn sjúkrakassa við
höndina til að geta búið um minniháttar sár eða skeinur. Fyrirbyggjandi
aðgerðir eru þó alltaf bestar.

- Vilmundur Hansen