Íslenskar trjátegundir sem bera fræ reglulega eru birki og reynir. Vitað er um ríflega 30 innfluttar trjátegundir sem hafa borið þroskað fræ hér á landi og hafa nokkrar þeirra sáð sér í íslenska náttúru.

Flest tré þroska fræ á haustin og best er að safna því eins fljótt og hægt er eftir að það hefur náð þroska. Annars er hætt við að það fjúki burt eða að fuglar éti það.

Best er að safna könglum, reklum og berjum í þurru veðri og setja í striga- eða bréfpoka. Ef notaðir eru plastpokar verður að tæma þá eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir að fræið mygli.

Þegar velja skal plöntu sem á að safna af fræi verður að gæta þess að hún sé þróttmikil og heilbrigð. Varast skal að tína fræ af lélegum og sjúkum einstaklingum.

Fræið geymir erfðaefnið og hætt er við að slæmir eiginleikar erfist. Þess skal að sjálfsögðu gætt að fá leyfi land- eða garðeigenda áður en fræsöfnun hefst. Rétt meðhöndlun fræs eftir tínslu er ekki síður mikilvæg en að valið sé fræ af góðum plöntum.

Að söfnun lokinni verður að þurrka fræið. Auðveldast er að breiða það á pappír á gólf eða borð, við 20 til 25°C hita, til dæmis nálægt ofni. Síðan verður að hreinsa burt öll óhreinindi, svo sem lauf, nálar og sprota.

Í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að geyma fræ yfir veturinn og sá því að vori. Yfirleitt nægir að geyma það á köldum og þurrum stað, en best er að geyma það í kæli við 0 til 4°C eða í vægu frosti. Fræið þarf að vera í þurrum og loftþéttum umbúðum.

Í góðri geymslu getur fræ flestra tegunda haldið eiginleikum sínum í nokkur ár.

- Vilmundur Hansen.