Fimm matlaukar

Til laukættkvíslarinnar (Allium) teljast um 500 tegundir og nokkrar þeirra eru meðal mikilvægustu matjurta sem ræktaðar eru. Laukar eru ómissandi við matargerð og auðveldari í ræktun en margan grunar. Blaðlaukur/púrrulaukur. Er lengi að vaxa en þrífst best á sólríkum stað í vel framræstum, lífrænum og lausum jarðvegi. Hægt að forrækta inni eða sá beint í beð. Æskilegt bil á milli plantna er 10 sentímetrar og 30 til 40 sentímetrar á milli raða. Einnig er gott að gróðursetja plönturnar um 10 sentímetra niður í jarðveginn til að bleikja leggina. Graslaukur. Fjölær og algengur í görðum. Myndar litlar fallegar þúfur með safaríkum blöðum. Fjölgað með sáningu eða skiptingu og er auðveldur í ræktun. Venjulega eru margar plöntur hafðar saman í nokkuð þéttum brúskum eða hnausum í garðinum og bili á milli hnausa haft um 30 til 40 sentímetrar. Vex í margs konar jarðvegi en gott að vökva hann með áburðarvatni annað slagið yfir vaxtartímann. Ræktaður vegna blaðanna en blómin eru líka æt og með laukbragði. Hjálmlaukur. Fjölær og fjölgar sér með smálaukum sem myndast í toppi blómstilkanna í staðinn fyrir blóm og fræ. Smálaukarnir eru settir niður með um10 til 15 sentímetra millibili og 30 sentímetra bil haft á milli raða. Þarf að grisja og umplanta á nokkurra ára fresti. Matlaukur. Gömul ræktunarjurt með óvissan uppruna. Til hvítur, gulur og rauður. Sáð um miðjan mars og forræktaður inni eða litlir útsæðislaukar settir beint í beð með 10 til 15 sentímetra millibili um miðjan maí. Dafnar best á sólríkum stað í moldarríkum jarðvegi og þarf reglulega vökvun. Vorlaukur. Afar hraðvaxta og auðveld tegund í ræktun. Sáð inni í mars eða apríl, nokkrum fræjum í hvern pott síðan er knippinu í pottinum plantað út þegar veður leyfir. Sá má í beð utanhúss á svipaðan hátt í lok júní, það gefur uppskeru í september. Æskilegt bil á milli hnausa 20 til 25 sentímetrar. Dafnar best á sólríkum stað í kalkríkum jarðvegi. Vilmundur Hansen.