Blómin um jólin

Jólin eru handan við hornið og því ekki úr vegi að fjalla lítillega vinsælustu jólablómin. Jólastjörnur eru líklega þær pottaplöntur sem flestir tengja við jólin en riddaraliljur og jólakaktus fylgja þar fast á eftir.

Jólastjörnur eiga rætur sínar að rekja til Mexíkó, nánar tiltekið til héraðsins Taxco þar sem hún vex sem runni eða lítið tré. Löngu fyrir komu Evrópumanna vestur um haf ræktuðu innfæddir jólastjörnur vegna litadýrðarinnar og var litið á þær sem tákn um hreinleika. Innfæddir lituðu klæði með rauðum blöðum jólastjörnunnar og mölluðu til lyf gegn sótthita úr hvítum mjólkursafa hennar. 

Jólastjörnur eru ekki auðveldustu plöntunar í ræktun til að halda lifandi en langt frá því að vera þær erfiðustu. Jurtin þrífst best við 12 til 21° C en endist best við neðri mörkin. Þegar jólastjarna er keypt skal láta pakka henni inn og það má alls ekki geyma þær lengi úti í köldum bíl, þar sem þær fá kuldasjokk, og því ráðlegt að fara með þær strax í hús. Best er að vökva jólastjörnur lítið en oft og með volgu vatni. Moldin má aldrei þorna alveg og það má ekki heldur láta pottinn standa í vatni. Látið því pottinn standa í djúpri pottahlíf sem fyllt er í botninn með vikri. Þannig stendur jólastjarnan ekki í vatni en nýtur góðs af uppgufun og loftraki leikur um hana. Jólastjörnur þurfa góða birtu og þrífast best í björtu herbergi eða í austur- eða vesturglugga.

Jólastjörnur hafa verið ræktun sem á Íslandi frá því skömmu fyrir 1960. Í dag eru ræktaðar og seldar hátt í hundrað þúsund stykki fyrir jólin. 

Þjóðverjinn Albert Ecke sem settist að Hollywood árið 1902 var gríðarlega heillaður af jólastjörnunni og hóf ræktun hennar í stórum stíl og seldi greinar á aðventunni. Árið 1920 tókst syni hans að framrækt dvergafbrigði af jólastjörnu þannig að hægt var að rækta hana í potti. Hann lagði mikla vinnu í að kynna hana og tengja rauða litinn jólunum. Það má því segja að Ecke yngri sé faðir jólastjörnunnar eins og við þekkjum hana í dag. Í dag er hægt að fá rauðar, fölrauðar og hvítar jólastjörnur.

Jólastjörnur geta valdið ofnæmi eða ertingu í húð hjá fólki sem er viðkvæmt fyrir slíku en plantan er ekki hættulega eitruð eins og stundum er haldið fram. Rannsóknir sýna að blöð jólastjörnunnar geta valdi uppköstum sé þeirra neytt í miklum mæli. Þrátt fyrir þetta er engin ástæða til að setja hana í jólasalatið þar sem hún er sögð mjög bragðvond.

Jólakaktus

Þessi algengi kaktus gengur undir ýmsum heitum eins og haust-, nóvember-, eða krabbakaktus, algengasta heitið er þó að öllum líkindum jólakaktus. Sérstaklega þegar hann blómstrar um jólahátíðina. Jólakaktusinn er uppruninn á Amasonsvæði Suður Ameríku, nánar tiltekið í Brasilíu, þar þar sem hann vex sem ásæta upp í trjákrónum. Ólíkt flestum öðrum kaktusum vex jólakaktusinn því í raka og skugga. Þetta gerir það að verkum að hann dafnar best í hálfskugga og þolir talsvert meiri vökvun en aðrir kaktusar. Kjörhiti hans er 15 til 20°C.

Eftir að blómgun líkur er gott að hvíla hann á svölum stað og draga úr vökvun í nokkrar vikur. Jólakaktusa er hægt að fá í ýmsum litum, rauður, hvítur bleikur og lillablár.

Riddarastjarna

Riddarastjarna eða amaryllis eins og þessi glæsilega laukplanta er oft nefnd er upprunni í Suður Ameríku en hefur dreifst þaðan sem pottaplanta vegna þess hversu harðger og auðveld hún er í ræktun auk þess að vera blómviljug. Blómin eru í mörgum litum, rauð, hvít og bleik auk þess sem þau geta verið marglit. 

Áður en laukurinn er settur í mold er gott að láta neðri hluta hans standa í volgu vatni í nokkra klukkutíma þar sem slíkt hraða rótarmyndun. Amaryllis laukar þrífast best í næringarríkum og vel framræstum moldarjarðvegi við 15 til 20°C. 

Þegar lauknum er komið fyrir í potti skal láta helming til einn þriðja af honum standa upp úr moldinni en þrýsta henni þéttingsfast að neðri hlutanum án þess þó að skemma ræturnar séu þær farnar að myndast. 

Moldin í pottunum skal alltaf vera rök yfir vaxtartímann en laukurinn þolir nokkur þurrk á meðan hann er í hvíld. 

- Vilmundur Hansen.