Fljótlega rennur upp sá tími sem margar plöntur fara að þroska ber. Berjaplöntur gefa betur af sér séu þær ræktaðar í frjósömum og deigum jarðvegi sem blandaður hefur verið með lífrænum áburði og á sólríkum og skjólgóðum stað.  

Hafþyrnir (Hippophae rhamnoides). Vex villtur í Evrópu og getur ná 6 metra hæð. Harðgerð og algeng garðplanta sem hægt er að fjölga með sáningu, græðlingum eða rótarskotum. Hæfilegt bil á milli plantna 1 til 2 metrar. Plönturnar eru annaðhvort karl- eða kvenkyns og þarf bæði kynin til að þroska aldin. Berin rauð og sitja á plöntunni langt fram á vetur og getur verið erfitt að tína þau af greinunum. Berin mjög C-vítamínrík, römm og henta vel til að bragðbæta líkjöra.

Hlíðaramall (Amelanchier alnifolia). Uppruni á vesturströnd Norður-Ameríku og Kanada þar sem berin eru ræktuð í stórum stíl og stundum kölluð kanadísk vínber. Grannvaxinn runni eða lítið tré sem getur náð 5 metra hæð. Fjölgað með sáningu, græðlingum og rótarskotum. Harðgerð planta sem gerir litlar kröfur. Dafnar best á sólríkum stað og í kalkríkum jarðvegi. Gott að klippa gamlar greinar burt til að örva nývöxt. Berin dökkblá og með hátt sykurinnihald, enda var plantan kölluð hunangsviður áður fyrr. Yrkin 'Thiessen‘, 'Northline‘, 'Martin‘ og 'Smoky‘ hafa öll reynst vel. Æskilegt bil á milli plantna er 1 til 2 metrar.

Jarðarber (Fragaria × ananassa). Eina plantan hér sem ekki er trékennd. Fjölær jurt sem fjölgar sér með ofanjarðarrenglum. Blómin hvít en berin rauð og sæt. Þrífst best á sólríkum stað og í næringarríkum jarðvegi með sýrustig milli 6 og 6,5. Til þess að tryggja góða uppskeru er nauðsynlegt að endurnýja plönturnar á 4 til 6 ára fresti. Einnig er gott að skipta um ræktunarstað þegar plönturnar eru endurnýjaðar til að koma í veg fyrir jarðvegsþreytu. Gott er að rækta jarðarber í hengipottum. Ranabjöllur og sniglar eru sólgnir í jarðarber og geta gert mikinn skaða. Yrkin 'Zephyr’, 'Korona’, ’Glima’, ’Rita’ og ’Senga Sengana’ hafa öll reynst vel. Lögun berjanna er mismunandi milli yrkja. Æskilegt bil á milli plantna í beði er 30 til 40 sentímetrar.

Reynir (Sorbus). Fjölbreytt ættkvísl trjáa og runna og eru ber allra tegundanna æt en misgóð á bragðið. Fjölgað með sáningu eða ágræðslu. Ber ilmreynis (S. aucuparia) og úlfareynis (S. hostii) eru ágæt í sultur og líkjöra. Ber úlfareynis með bragði sem minnir á epli.

Rifs (Ribes rubrum). Vex villt í Evrópu og mjög algeng garðplanta hér. Grófur, saltþolinn runni sem nær 2 metra hæð og getur orðið bústinn og fyrirferðarmikill. Fjölgað með græðlingum og sveiggræðslu. Berin rauð en einnig til hvít og bleik. Góð til átu beint af runnanum eða til sultugerðar. Klippa á gamlar greinar, sem eru dekkri, af til að örva nývöxt og auka uppskeruna. Blaðlús og fiðrildalirfur algengt vandamál. Rifs er millihýsill fyrir álmlús og því ætti ekki að rækta rifs og álm (Ulmus glabra) nálægt hvort öðru. Yrkið 'Rauð Hollensk' er algengast hér á landi.

Rósir (Rosa). Fjölbreytt ættkvísl plantna með ólíkt vaxtarlag. Aldinin eru hjúpaldin og kallast stundum nýpur og eru æt hjá mörgum tegundum. Ræktuð til manneldis víða um heim. Klippa þarf gamlar greinar burt til að örva nývöxt og aldinmyndun. Blaðlús og fiðrildalirfur eru algengt vandamál. Nípur ígulrósar, 'Fru Dagmar Hastrup’ (R. rugosa ’Fru Dagmar Hastrup’), meyjarrósar (R. moyesii) og hjónarósar (R. sweginzowii) öll góð til átu. Nauðsynlegt er að hreinsa fræið úr holdi hjúpana áður en þeirra er neytt eða þau notuð í sultur og súpur. Rósahjúparnir eru mjög C-vítamínríkir. Mulin fræ eru ágætis kláðaduft

Sólber (Ribes nigrum). Vex villt í Evrópu og algeng garðplanta hér. Fjölgað með græðlingum og sveiggræðslu. Berin svört. Klippa þarf burt gamlar greinar, sem eru dekkri að lit og eldri en fimm ára, til að örva nývöxt og auka uppskeruna. Blaðlús og fiðrildalirfur algengt vandamál. Sterk lykt sem minnir á kattahland af blöðunum, séu þau marin. Góð ber til sultugerðar. Yrkin 'Brödtorp‘. 'Öjebyn‘ og 'Melalahti‘ vel reynd, harðgerð og skila góðri uppskeru flest ár.

-- Vilmundur Hansen.