Ævintýri garðálfanna
Ævintýri garðálfanna
Álfa- og huldufólkstrú á sér djúpar rætur í íslenskri menningu. Víða er að finna álagabletti, kletta, hóla og hæðir þar sem álfar og huldufólk eiga sér bústað og sögur um samskipti manna og álfa eru þekktar um allt land.
Margir muna eflaust eftir því að hafa átt sér lítil bú sem börn og skapað sér veruleika þar sem heimur manna og hulduvera rann saman. Álfar og huldufólk eru ósýnilegu Íslendingarnir.
Garðálfar verða algengari sjón með hverju árinu þar sem þeir skjóta upp kollinum inni á milli burknanna, í trjábeðinu, á milli sumarblómanna og á steinhleðslunni. Fólk er ófeimið við að skreyta garðinn með alls kyns fígúrum, gervifuglum, plastblómum og síðast en ekki síst garðálfum, sem eru fáanlegir í margs konar útgáfum.
Erlendis er það sem við köllum garðálfa í daglegu máli flokkað sem dvergar, enda fyrirbærið mun líkara klunnalegum dvergum en fínlegum álfum. Lítið er um dverga í íslenskri þjóðtrú og því eðlilegt að álfaheitið sé okkur tamt í munni. Tilfinning fólks til garðálfa er tvískipt, annaðhvort elskar fólk þá eða hatar. Sumum finnst þeir lífga upp á garðinn og þykir vinalegt að sjá þá á milli blómanna, en öðrum þykja þeir argasta smekkleysi, ódýr alþýðumenning og „kitsch“ í sinni verstu mynd.
- Vilmundur Hansen.