Viðhald á útveggjum
Steyptir útveggir
Flestir húseigendur fylgjast vel með útliti hússins síns og sjá því fljótt hvort þörf er á viðhaldi. Almenna reglan varðandi steinsteypt hús er að mála húsin með ákveðnu millibili, sem fer eftir gerð þeirrar málningar sem notuð hefur verið. Ef engar skemmdir eru sjáanlegar nægir að skafa lausa málningu í burtu, bursta með vírbursta og mála síðan yfir.
Leitið eftir ráðgjöf í málningardeild Húsasmiðjunnar og þá er gott að vita hvaða málning er á húsinu fyrir, því það auðveldar starfsmönnum málningardeildar ráðgjöfina.
Tréverk á útveggjum
Þótt stærra hlutfall íbúðarhúsnæðis sé úr steinsteypu hér á landi, þá hefur orðið mikil aukning í notkun á ýmiskonar tréverki á útveggjum með steypunni. Þá eru heilu fletirnir klæddir með viðarklæðningu, ýmist úr harðviði eða öðrum viðartegundum, sem þá eru varðir með olíu eða viðarvörn.
Almenna reglan er sú að þessir fletir þarfnast viðhalds með svipuðu millibili og gluggar hússins.
Skemmdir og sprungur í steyptum útveggjum
Ef skemmdir eru sjáanlegar á yfirborði steypunnar, svo ekki sé talað um sprungur, er ráðlegt að kalla til sérfræðing og athuga málið. Sprunguviðgerðir í steinsteypu eru yfirleitt ekki á færi leikmanna og kalla á aðstoð iðnaðarmanna. Að fenginni ráðgjöf getur húseigandinn síðan ákveðið framhaldið — hvort hann máli sjálfur eða fái aðstoð fagmanna.
Gott að hafa í huga
- Leitaðu ráðgjafar áður en hafist er handa við steypuviðgerðir.
- Steypuviðgerðir eru ekki á færi leikmanna.
- Málningardeildir Húsasmiðjunnar selja múrviðgerðarefni.
- Sölumenn í málningardeildum geta gefið ráðleggingar varðandi val á efnum og hvort leita þurfi til fagmanns.