Allt frá grunni að góðu heimili síðan 1956

Húsasmiðjan á sér yfir hálfrar aldar langa viðskiptasögu á Íslandi og er í dag eitt af stærstu fyrirtækjum landsins. Húsasmiðjan veitir Íslendingum alhliða þjónustu á byggingavörumarkaði og starfsemi hennar nær til landsins alls.

Verslanir Húsasmiðjunnar eru fjórtán og eru Blómavalsútibú í sjö þeirra. Jafnframt er rafiðnaðarverslunin Ískraft með fjögur útibú.

Húsasmiðjan var stofnuð árið 1956 af Snorra Halldórssyni byggingameistara en hann reisti ýmsar þekktar byggingar í Reykjavík, þar á meðal Þjóðminjasafnið og Háskólabíó. 

Fyrst í stað voru helstu viðfangsefni fyrirtækisins framleiðsla einingahúsa og timburvinnsla. Fljótlega hóf Húsasmiðjaneinnig að flytja inn og selja timbur. Árið 1970 hóf fyrirtækið starfsemi í Súðarvogi og ári síðar var það formlega orðið hlutafélagið Húsasmiðjan hf. Árið 1975 bættust steypustöð og einingaverksmiðja við plötuhús Húsasmiðjunnar í Súðarvogi og fyrirtækið hélt áfram að þróa eigin húsbyggingargerð meðfram því sem það þjónustaði aðra byggingaraðila. Meðal annars voru umfangsmikil verkefni í Grafarvogi sem var þá að byggjast upp.

Þegar komið var fram á níunda áratuginn var ljóst að aukin eftirspurn væri eftir byggingarefni og alls kyns öðrum vörum til að bæta og breyta á heimilum landsmanna. Húsasmiðjan bjó yfir nægri þekkingu til að mæta þessari þörf og stórt skref var stigið í sögu fyrirtækisins með opnun smávöruverslunar í Súðarvogi árið 1984. Verslunin naut strax mikilla vinsælda. Aðeins fjórum árum síðar bættist við verslun í Skútuvogi og árið 1991 var þriðja verslun Húsasmiðjunnar opnuð í Hafnarfirði en þar var jafnframt að finna timbursölu. Fimm árum síðar var opnuð ný verslun og timbursala í Keflavík og voru verslanirnar þá orðnar alls fimm talsins.

Þegar nálgaðist aldamótin fóru forsvarsmenn Húsasmiðjunnar að líta til þess hvernig mætti auka veg fyrirtækisins enn frekar og veita viðskiptavinum þjónustu á fleiri sviðum en áður. Hófst þá röð sameininga og yfirtaka á fyrirtækjum í skyldum rekstri, bæði byggingarvöruverslunum um land allt sem og ýmsum sérhæfðum verslunum og heildsölum. Hæst ber kaup Húsasmiðjunnar á verslunum Blómavals, rafiðnaðarverslunum Ískraft og innréttingafyrirtækinu H.G. Guðjónsson. Einnig var fjárfest í timbursölu og framleiðslu í Eistlandi og Lettlandi en sú starfsemi var seld aftur nokkrum árum síðar.

Fyrstu ár tuttugustu og fyrstu aldarinnar, rétt eins og síðustu ár aldarinnar sem leið, einkenndust af miklum vexti í starfsemi Húsasmiðjunnar og dótturfyrirtækja hennar. Þjónustan við landsbyggðina var stóraukin á þessum árum. Ný verslun og timbursala var opnuð bæði á Ísafirði og Egilsstöðum. Nýjar Húsasmiðjuverslanir opnuðu í Vestmannaeyjum og á Akranesi. Á Selfossi kom til sögunnar ný stórverslun Húsasmiðjunnar og Blómavals sem þjónað gat vaxandi íbúafjölda á Árborgarsvæðinu sem og vaxandi sumarhúsabyggðum í uppsveitum Árnessýslu. Þjónustan á höfuðborgarsvæðinu var jafnframt stórbætt með glæsilegum stórverslunum í Skútuvogi og Grafarholti og ásamt timbur- og dreifingarmiðstöð í Kjalarvogi.

Fjölskylda stofnandans, Snorra Halldórssonar, seldi félagið árið 2002 og á árunum í framhaldi urðu eigendabreytingar hjá Húsasmiðjunni enda gekk mikið á í viðskiptalífi þjóðarinnar á þessum árum.

Mestu tímamótin urðu þó í janúarmánuði árið 2012 þegar merki og rekstur Húsasmiðjunnar voru keypt af danska fjölskyldufyrirtækinu Bygma Gruppen A/S, en Bygma rekur fjölmargar byggingavöruverslanir í Danmörku, Svíþjóðog Færeyjum. Má segja að nýtt eignarhald rími vel við sögu Húsasmiðjunnar sem fjölskyldufyrirtækis og leggja hinir rótgrónu dönsku eigendur Bygma áherslu á að Húsasmiðjan haldi áfram að sinna því sem hún gerir best — að þjóna íslenskum neytendum og iðnaðarmönnum með góðri vöru á góðu verði.

 

Snorri Halldórsson skráir Húsasmiðjuna sem einkafyrirtæki. Einingahúsaframleiðsla og timburvinnsla eru helstu viðfangsefni fyrirtækisins.

1956