Umhirða vorlauka
Umhirða vorlauka
Núna er rétti tíminn til að byrja að setja vorlaukana í potta og mold. Vorlaukar eru settir niður að vori og blómstra að sumri og fram á haust.
Eftir að vorlaukar eru komnir í pott á að setja pottinn á bjartan stað. Þegar fyrstu blöðin koma í ljós á að flytja pottinn á svalari stað en gæta þess að birta sé nóg. Gott er að gefa áburð þegar vöxturinn er kominn vel af stað og plantan hefur náð vænum 10 sentímetrum.
Seinni hluta maí eða í byrjun júní er kominn tími til að herða jurtirnar með því að setja pottinn út á svalir eða tröppur í 2 til 3 klukkutíma á dag.
Útiverutíminn er svo lengdur smám saman þar til hætta á næturfrosti er liðinn hjá. Eftir það er óhætt að hafa plönturnar úti allan sólarhringinn.
Vorlaukar, hnýði og forðarætur þurfa bjartan og skjólgóðan stað í garðinum svo að blómin fái notið sín. Jurtir í pottum er auðvelt að flytja í skjól, gerist þess þörf. Það auðveldar þeim lífið og eykur blómgunina.
Klípa skal burt visnuð blóm sem búin eru að blómstra. Það kemur í veg fyrir tilraunir til fræmyndunar og eykur blómgun.
Fæstur vorlaukar lifa veturinn af úti en þeir sem vilja rækta þær áfram eiga að láta blöðin sölna að fullu og taka svo pottinn inn fyrir fyrsta frost.
Geyma skal pottinn með forðarótinni eða rótina sjálfa á þurrum og svölum stað yfir veturinn.
Næsta vor er forðarótin sett aftur í pott með góðri mold og þegar búið er að vökva vaknar jurtin af dvala sínum. Hringekja lífsins snýst endalaust.
- Vilmundur Hansen