Styttist í sumarblóminn
Styttist í sumarblóminn
Tími sumarblómanna er að renna upp og áður en langt er um liðið munu þau lífga upp á umhverfið eins og enginn sé morgundagurinn.
Sumarblóm auka litadýrðina í garðinum og fara vel í beðum, pottum, kerum og svalakössum. Flest sumarblóm þurfa sólríkan stað, skjól til að dafna og blómstra ríkulega. Þau þola ekki frost þannig að óráðlegt er að planta þeim út fyrr en hætta á næturfrosti er liðin hjá.
Velja skal sumarblóm með tilliti til vaxtarstaðar því lítið gagn er í að setja blóm sem þurfa mikla sól í skugga, eða hávaxnar plöntur þar sem mikið blæs og þær eiga á hættu að fjúka um koll.
Hætt er við plöntur sem ræktaðar eru í takmörkuðu rými, til dæmis í pottum og kerum, ofþorni og því er nauðsynlegt að vökva þær í þurrkatíð.
Moldin má þó ekki vera síblaut eins og í mýri því þá geta ræturnar ekki andað og það dregur úr vexti. Mikilvægt er að göt séu í botni ílátanna þannig að afrennsli sé gott. Séu engin göt má bjarga sér með því að setja lag af grófri möl í botninn.
Nauðsynlegt er að undirbúa jarðveginn vel áður en sumarblómunum er plantað, hvort sem það er í beð eða ker. Æskileg jarðvegsdýpt fyrir sumarblóm er 15 til 20 sentímetrar. Stinga skal jarðveginn upp, hreinsa burt grjót, mylja jarðveginn og bæta í hann lífrænum áburði á nokkurra ára fresti. Síðan er jarðvegurinn jafnaður til og lítils háttar af tilbúnum áburði stráð yfir.
-- Vilmundur Hansen.