Snyrting stórra trjáa
Snyrting stórra trjáa
Tré eru kippt eða snyrt vegna þess að vaxtarrými þeirra er of lítið, greinar of stórar, hafa orðið fyrir skemmdum eða erum dauðar. Með því að grisja fá tré aukið vaxtarrými, loftrými eykst og færri plöntur verða um næringuna í jarðveginum. Tré eru einnig klippt til að breyta vaxtarlagi þeirra, laga þau að umhverfinu og þeirri notkun sem þeim er ætluð.
Myndast hefur hefð um að klippa tré seinni hluta vetrar og snemma á vorin þótt ekkert mæli gegn því að klippa þau allan ársins hring. Að vísu er betra að klippa sumar tegundir, eins og garðahlyn og birki á veturna áður en safastreymið frá rótunum upp í krónuna verður mikið.
Þeir sem ætla að fella tré geta gert það á hvaða árstíma sem er. Auðveldast er að fella tré áður en þau fá lauf eða eftir að þau fella lauf,ið þá er minni massi sem þarf að fjarlægja úr garðinum.
Góð og beitt verkfæri eru nauðsynleg þegar klippt er. Handklippur fyrir minni greinar, kraftklippur fyrir stórar greinar og sög eru verkfæri sem enginn garðeigandi getur verið án en þegar fella á stór tré er best að nota keðjusög.
Verkfærin verða að vera beitt svo að skurðurinn verði hreinn og sárið nái að loka sér, auk þess sem vinnan verður auðveldari ef verkfærin bíta vel.
Æskilegt er að snyrta trén reglulega frekar en að draga það um of. Smærri sár gróa fyrr og betur en stór og því minni hætta á fúa eða roti. Ef of seint er í rassinn gripið er betra að klippa burt eina stóra grein en margar litlar vegna þess að yfirborð eins stórs sárs er yfirleitt minna en margra lítilla.
Yfirleitt vinnst meira á því að taka burt tré þar sem mörg vaxa þétt en að grisja út krónu allra trjánna og láta þau standa áfram í þrengslum.
Ekki má skilja eftir stubb þegar stórar greinar eru fjarlægðar en þó skal klippt þannig að greinarhálsinn verði eftir því þannig grær sárið fyrr.
Málning í sár er eingöngu til skrauts og álíka gagnleg og að hengja jólakúlur á tréð. Best er að láta sárið þorna af sjálfu sér, hversu stórt sem það er. Sárin eru áberandi til að byrja með en gróa og verða fljótlega samlit trénu.
- Vilmundur Hansen.