Sniglar og nokkur trix til að varna þeim
Í votviðri eins og af er sumri Sunnanlands geta sniglar orðið mjög ágengir í garðinum og ekki síst í matjurtargarðinum þar sem sniglar eru sérstaklega sólgnir í salat, kál, spínat og jarðarber.
Til að halda sniglum í skefjum má dreifa sandi yfir beðið eða í kringum plönturnar og hindra þannig að þeir komist að þeim.
Með skyr- eða jógúrtdollu og botnfylli af bjór eða pilsner er hægt að leiða sniglana í gildru. Dósirnar eru grafnar þannig að brún þeirra nemi við yfirborð jarðvegsins, lítils háttar af öli er hellt í og hlíf, sem er þannig gerð að sniglarnir geti skriðið undir hana, sett yfir. Lyktin af bjórnum laðar sniglana að og þeir detta ofan í dósina.
Á heitum sólardögum má leggja raka fjöl í moldina þannig að raka hliðin snúi niður. Sniglarnir skríða undir fjölina til að skýla sér fyrir sólinni og þá er lítið mál að tína þá burt.
Eins er hægt að tína snigla í fæðuleit á kvöldin þegar þeir eru á ferli og auðvelt að sjá þá.
Af sniglum er líklega spánarsnillinn (Arion lusitanicus) skæðasta plágan. Spánarsnigill er tiltölulega nýr landnemi hér á land. Hann er yfirleitt rauðbrúnn á litinn og getur orðið allt að 15 sentímetra langur og valdið verulegum skaða þar sem hann fer yfir.
-- Vilmundur Hansen