Skjól fyrir vetri
Skjól fyrir vetri
Flestar plöntur sem ræktaðar eru í görðum eru fullkomlega færar um að sjá um sig sjálfar yfir vetrarmánuðina og því óþarfi að hafa mikið fyrir vetrarskjóli.
Ef plönturnar eru aftur á móti viðkvæmar fyrir kulda eða vorsól eru nokkrar einfaldar reglur sem garðeigendur ættu að venja sig á að fara eftir þegar líða fer á haustið og þegar sólin fer að hækka á lofti á vorin.
Mörg sígræn tré og runnar eru viðkvæm fyrir vor sólinni og því nauðsynlegt að skýla þeim sem standa á berangri. Það kemur í veg fyrir of mikla útgufun og sólbruna á vorin sem leiðir til þess að barrið ofþornar og verður brúnt á litinn. Almennt er garðeigendum þó ráðlagt að velja frekar harðgerðar tegundir á erfiða staði og bíða með viðkvæmari tré og runna þar til skjólið fyrir þá er orðið nægilega mikið.
Sölnuð blöð veita fjölærra plantna skjól yfir vetrarmánuðina og þess vegna á alls ekki að hreinsa þau burt fyrr en að vori. Þeir sem vilja geta aftur á móti rakað mesta laufið úr grasflötinni og í stað þess að setja það í safnhauginn er gott að hlúa að viðkvæmum fjölæringum eða rósum með því að hrauka upp að þeim með laufinu sem fallið hefur af trjánum. Laufið veitir plöntunum skjól og heldur hita í jarðvegi, sem er gott vegna þess að rætur eru viðkvæmar fyrir örum hitabreytingum í moldinni.
Gott er að skýla ungum trjáplöntum, hvort sem er lauf- eða barrtrjám, með striga fyrir verstu vindáttinni og einnig getur verið gott að setja sæmilega stóran stein við ung plöntuna til að koma í veg fyrir frostlyftingu og rótarslit.
Allar viðkvæmustu plönturnar þarf aftur á móti að taka inn og skýla þannig fyrir Vetri konungi.
- Vilmundur Hansen