Pottaplöntur og hækkandi sól

Skammdegið er flestum pottaplöntum erfitt og margar þeirra því slappar og lufsulegar þessa daganna en það horfir til bóta með hverjum degi sem sólin hækkar á lofti. 

Fljótlega er kominn tími til umpotta pottaplöntum sem hafa stað lengi í sömu mold en plöntum sem var umpottað í fyrra að árið þar á undan má gefa áburð í litlum skömmtum á um það bil þriggja vikna fresti til að byrja með.

Best er að umpotta á vorin svo að ræturnar fái tíma til að jafna sig áður en plantan fer að vaxa eitthvað að ráði. Velja skal pott sem eru aðeins stærri en sá sem blómið stóð í fyrir. 

Leirpottar þurfa að liggja í vatni í að minnsta kosti sólarhring áður en plantað er í þá. Þetta er gert til að ná úr þeim óæskilegum sýrum sem geta haft neikvæð áhrif á vöxtinn. Gamla potta þarf að þrífa vel til að losna við hugsanleg vanþrif sem geta leynst í þeim. 

Gott er að setja skal leirbrot eða möl í botninn á pottinum og pjötlu milli brotanna og moldarinnar til að koma í veg fyrir að mold hripi niður um gatið í botninum.

Ráðlegt er að vökva plöntur klukkutíma áður en þær eru teknar úr gamla pottinum til þess að moldin hrynji ekki af og slíti fínu ræturnar. Yfirleitt er nóg að kreista plastpotta svo að moldarköggullinn losni. 

Það getur verið erfitt að ná kögglinum úr leirpottum. Stundum er nóg að skera með fram innri brún pottsins til að losa moldina en í verstu tilfellum getur þurft að brjóta pottinn.

Þegar búið er að losa plöntuna úr pottinum skal hreinsa burt lausa mold, dauðar rætur og dauð blöð. Síðan er plöntunni komið fyrir í nýja pottinum og fyllt upp með nýrri mold og henni þrýst mátulega niður. Að lokum skal vökva og helst láta pottinn standa í hálfskugga í nokkra daga.


Á sumrin er hæfilegt að vökva heimilisblómin með áburðarlausn á tveggja til fjögurra vikna fresti en sjaldnar yfir vetrarmánuðina og það er vita gagnslaust að gefa plöntum sem ræktaðar eru við slæm skilyrði áburð. 

Áburður í söluumbúðum er misjafnlega sterkur og því ætti fólk að lesa leiðbeiningarnar og fara eftir þeim. Of mikill áburður brennir rætur plantnanna og dregur úr vexti.

Þeim sem vilja ekki nota tilbúinn áburð er bent á að ósaltað kartöflusoð er ágætur áburður. Einnig er hægt að nota vatn sem mulin eggjaskurn hefur
staðið í en það er um leið góður kalkgjafi og hentar ekki plöntum sem vilja súran jarðveg.

Plöntur sem keyptar eru í gróðrarstöðvum eru ræktuð við kjöraðstæður og þurfa því ekki áburð fyrstu vikurnar. 

- Vilmundur Hansen.