Meðferð á afskornum blómum
Meðferð á afskornum blómum
Afskorin blóm eru falleg og tilvalin tækifærisgjöf til að gleðja, sem ástarjátning og eitthvað sem fólk kaupir handa sjálfum sér til að skreyta heimilið. Afskorin blóm segja svo margt.
Misjafnt er milli tegunda og við hverskonar aðstæður blómin eru geymd hversu lengi þau standa. Afskorin blóm í blómaverslun eru geymd við kjöraðstæður en allur gangur er á því hvernig aðbúnaður þeirra er í stórmörkuðum.
Ekki er óeðlilegt að afskorin blóm standi í viku og allt í þrjár vikur en það er misjafnt eftir tegundum, eftir að heim er komið.
Til að fá blómin til að standa sem lengst skal skáskera af stilkunum, með beittum hníf til að halda vatnsæðunum opnum og viðhalda safaspennunni, tvo til þrjá sentímetra eða í þeirri hæð að þeir passi í vasann. Einnig skal taka af laufblöð sem geta lent í vatninu í vasanum.
Gæta skal þess að vatnið sem í vasann fer sé við stofuhita og best er að skipta um vatn á blómunum á hverjum degi en að lágmarki á þriggja daga fresti. Gott er að tína burt visnuð strax.
Yfirleitt fylgir með blómvöndum í blómaverslunum lítill poki með eins konar blómavítamíni sem bæta skal í vatnið í vasanum. Sé slíkt fínerí ekki til staðar má leysa upp svolítið af sykri í vatnið og sumir segja að ekki sé verra að mylja smávegis af C-vítamíni eða setja smávegis af sítrónusafa með til að fá blómin til að standa lengur.
Afskorin blóm eiga aldrei að standa í beinni sól eða nálægt heitum miðstöðvarofni. Bæði eykur útgufun þeirra með þeim afleiðingum að þau fölna fyrr.
- Vilmundur Hansen.