Klifur- og vafningsjurtir
Klifurplöntur eru eitthvað svo dularfullar. Þær gefa garðinum sérstakan svip og í mínum huga virka garðar með vafnings- og klifurplöntum gamlir og grónir.
Sumar klifurplöntur blómgast fallega og gefa frá sér góðan ilm en aðrar eru sígrænar. Flestar eru þær skuggþolnar og þola vel að vaxa í skoti eða undir þakskeggi.
Hægt er að láta plönturnar klifra upp eftir tré eða vegg. Einnig er hægt að reisa súlu í garðinum og láta klifurjurt hylja hana með tímanum. Þeir sem vilja rækta klifurjurtir uppi við vegg geta annaðhvort plantað bergfléttu og leyft henni að fikra sig upp eftir honum eða sett upp grind, net eða vír sem vafningsviðurinn getur snúið sig utan um. Klifurjurtir vaxa hratt og dafna því best í frjóum og hæfilega rökum jarðvegi.
Bergflétta er sígræn planta sem fikrar sig upp eftir veggjum eða trjám með litlum heftirótum sem festa sig við undirlagið. Ræktuð vegna blaðanna og þolir klippingu. Harðgerð, salt- og skuggþolin.
Bergsóley. Blómin bláar drjúpandi klukkur, einnig til hvít, bleik og rauð. Þarf stuðning. Gefur garðinum skemmtilegan svip ef hún er látin vaxa upp eftir tré eða súlu. Þolir skugga.
Bjarmasóley er harðgerð og blómgast stórum gulum blómum. Þolir að standa við umferðargötur. Þarf stuðning og getur náð 4 metra hæð.
Blendingstoppur er klifurplanta með fallegum gulum blóm. Harðgerður, þrótt mikill og mær fimm metra hæð. Þrífst best í moldarríkum og vel framræstum jarðvegi en plantan þarf talsvert vatn á meðan vöxturinn er mestur. Þolir hálfskugga.
Humall er fjölær hraðvaxta jurt sem getur ná 4 til 5 metra hæð á einu sumri en visnar niður að rót yfir veturinn. Blómin fremur ósjáleg. Humall er harðgerður og skuggþolinn og hentar vel í skot í garðinum. Þarf vír eða stuðning til að klifra upp með.
Kínatoppur er uppruni í Asíu. Sígrænn skriðull eða klifrandi og nær 10 metra hæð. Blöðin aflöng. Blómin rauð en berið blásvört. Þrífst best í moldarríkum og framræstum jarðvegi. Þarf skjól og stuðning til að getað vafið sig upp eftir. Viðkvæmur.
Skjaldflétta. Einær hengi- eða klifurjurt. Blöðin stór og næstum kringlótt. Blómin stór, gul, rauð og appelsínugul. Þarf sól og skjól. Blöð, blóm og fræbelgir og óþroskuð fræ skjaldfléttunnar eru æt.
Skógartoppur er vindþolin klifurjurt sem getur vafið sig upp í 10 metra hæð. Blómstrar gulu eða rauðu í júlí og ágúst, berin rauð. Ilmar vel.
Trjásúra hagar sér eins og fjölær jurt og visnar á veturna. Vex hratt og nær 4 til 5 metra hæð yfir sumarið. Blöðin fagurgræn, blómin hvít en sjaldgæft að hún blómgist hér.
Vaftoppur. Klifurrunni sem nær 6 metra hæð. Gulhvít eða rauðleit blóm um mánaðarmótin júní og júlí Þrífst best á sólríkum stað og í moldarríkum og vel framræstum jarðvegi.