Gróðurskálar
Gróðurskálar lengja sumarið í báða enda
Garðeigendur hika ekki við að setja upp timburveggi, smíða sólpall með heitum potti og hafa gosbrunn eða tjörn í garðinum. Undanfarin ár hefur færst í vöxt að fólk reisi gróðurskála við íbúðarhúsið og lengi þannig sumarið verulega í báða enda.
Gróðurskálum er skipt í þrennt eftir upphitunarfyrirkomulaginu í þeim og ræktunarmöguleikarnir í þeim takmarkast af því.
Í köldum skálum er engin hitalögn, hitastig ræðst af veðurfari og hitinn í þeim getur farið niður fyrir frostmark á veturna. Loftslagið líkist kaldtempruðu loftslagi Vestur-Evrópu.
Í svölum skálum er hitalögn sem nægir til að halda hitastigi ofan við frostmark yfir vetrarmánuðina. Hiti á vetrum er 1 til 10°C en ræðst að mestu af veðurfarinu utandyra. Loftslagið í svölum garðskálum líkist helst loftslaginu í kringum Miðjarðarhafið og í Suður-Evrópu.
Í heitum skálum þarf að vera hitalögn sem getur haldið lofthita yfir 10°C allan ársins hring. Jarðvegshiti þarf að vera stöðugur við 15 til 18°C, þannig að æskilegt er að hafa einhverja hitalögn í beðum og gólfi og einangra þarf sökkul vel frá umlykjandi jarðvegi í garðinum. Loftslag í heitum skálum líkist helst loftslagi Flórídaskagans eða Azoreyja. Í upphituðum skálum má draga verulega úr hitakostnaði með því að hafa útveggi vel einangraða og gjarna má vera venjulegur, einangraður útveggur í um eins metra hæð frá gólfi. Gæta þarf þess líka að þétta vel öll opnanleg fög.
Gólfið í gróðurskálum þarf að vera sterkt og þola vel vatn, óhreinindi og upplitun af völdum sólarljóss. Best er að steypa eða helluleggja gólfið og hafa þarf í því niðurfall með vatnslás á hvern 10 fermetra gólfflöt því nauðsynlegt getur reynst að bleyta gólfið annað slagið til að bæta loftrakann í skálanum.
Hiti í gróðurskálum getur orðið mjög mikill á björtum sólskinsdögum og þá þarf að huga vel að loftræstingu. Geislar sólarinnar geta einnig brennt eða sviðið blöð plantna í sterku sólskini og því nauðsynlegt að geta skyggt fyrir glugga með rimla- eða rúllugardínum þegar sólin er hæst á lofti.
Vökvun þarf að vera góð og regluleg. Plöntur í pottum og kerum þarf að vökva meira en plöntur í beðum. Rætur kröftugra plantna sem standa í beði við útvegg eiga það til að vaxa út fyrir skálann til að ná sér í vatn og næringu. Eins og með alla ræktun verður sýrustig jarðvegsins og áburðargjöf að vera í lagi í gróðurskálum til að ræktun heppnist vel.
Til þess að halda loftrakanum háum í gróðurskálum getur reynst nauðsynlegt að loka það af frá íbúðarhúsinu með hurð. Góð loftræsting í gróðurskálum skiptir einnig máli og því þurfa opnanleg fög að vera 30 til 40% af grunnfleti þeirra. Einnig er gott að hafa viftu í skálanum til að halda loftinu á hreyfingu.
- Vilmundur Hansen.