Gróðursetning trjáplantna
Gróðursetning trjáplantna
Við gróðursetningu trjáplantna skiptir mestu að rétt sé staðið að verki, að vinnubrögð séu vönduð og að eingöngu sé plantað út góðum og hraustum plöntum.
Við gróðursetningu skal gæta þess að plönturnar verði fyrir sem minnstu hnjaski og að moldin haldist sem mest á rótunum. Rætur plantna þola illa sólarljós og útfjólubláir geislar sólarinnar fara illa með þær. Því má ekki líða langur tími frá því að berrótarplöntur eru teknar upp eða plöntur teknar úr potti þar til þær eru settar niður aftur.
Sé nauðsynlegt að geyma plönturnar áður en þær eru gróðursettar skal koma þeim fyrir á skuggsælum stað og vökva vel. Best er að gróðursetja tré og runna áður en vöxtur hefst á vorin og strax eftir að frost fer úr jörðu, eða á haustin eftir að hæðarvexti plantnanna lýkur. Eftir að hæðar- og laufvexti lýkur á sumrin og brum hafa náð að þroskast setja plöntur nokkurn kraft í rótarvöxtinn.
Tilvalið er að nota haustið til að gróðursetja eða flytja tré.
Eftir gróðursetningu að hausti er gott að setja þokkalegan stein við hliðina á litlum trjám. Hann kemur í veg fyrir frostlyftingu og veitir trénu skjól og yl. Stærri tré verður að festa niður með staur til að koma í veg fyrir að þau fjúki um koll. Gróðursetja má jafnt að vori sem hausti en hefð er fyrir því að gróðursetja að vori, og þá eins snemma og kostur er.
Fyrir gróðursetningu skal stinga upp beð eða holu í hæfilegri dýpt fyrir tréð eða runnann og gott er að bæta lífrænum áburði í jarðveginn til að gera hann safaríkari fyrir plöntuna. Æskileg dýpt beða fyrir tré og runna er 60 til 80 sentímetrar eða 3 til 4 skóflustungur.
Varast skal að gróðursetja plöntur í dældir á flatlendi þar sem vatn gæti safnast fyrir. Aldrei má gróðursetja tré dýpra en þau stóðu áður og gott er að lyfta jarðveginum upp í svolítinn kúf og gróðursetja í hann þannig að rótarháls plöntunnar nemi við hæstu holubrún. Greiða skal ræturnar út í holuna eins og hægt er og gæta þess að plönturnar standi lóðréttar í holunni. Síðan er moldinni mokað að og þjappað varlega að rótunum þannig að plönturnar standi vel og séu ekki lausar í jarðveginum.
Séu tré orðin meira en einn og hálfur metri á hæð er nauðsynlegt að setja staur niður með þeim sem stuðning fyrstu árin á meðan þau eru að ræta sig og koma sér fyrir. Eftir að plöntunni hefur verið komið fyrir á sinn stað þarf að vökva vel og gæta þess næstu daga að ræturnar þorni ekki.
- Vilmundur Hansen.