Fyrstu skrefin í átt að sumri

Nú fer að koma að því að sá fyrstu sumarblómunum. Ekki alveg strax en bráðum og fljótlega verður birtur listi yfir sáningartíma helstu sumarblóma.

Að loknum undirbúningi að sáningu er komið að sáningunni sjálfri. Gæta skal þess að kaupa fræ af plöntum sem dafna vel þar sem þeim er ætlað að standa. Það fæst lítið með því að rækta upp plöntur sem þurfa mikla sól og setja þær síðan á skuggastað í garðinum.

Flestar plöntur þurfa birtu þrátt fyrir að sumar tegundir standi sig ótrúlega vel í skugga. Einnig verður að huga að hæð plantnanna og muna að lágvaxnar plöntur henta betur þar sem vindur getur blásið.

Eftir að búið er að setja sáðmold í ræktunarílát skal þjappa henni lauslega og vökva með volgu vatni þannig að hún verði rök en ekki blaut í gegn. Ef vökvað er of mikið er gott að láta mesta vatni renna úr moldinni.

Fræinu er síðan sáldrað jafnt yfir sáðmoldina og þess gætt að það liggi ekki of þétt. Að því loknu er þunnu sáðmoldarlagi, tvöfaldri stærð fræjanna, stráð yfir. Séu fræin mjög smá er nóg að þjappa þeim lauslega niður í moldina.

Munið að setja pinna með nafni tegundarinnar og lit í ræktunarílátið.

Æskilegt hitastig við spírun hjá flestum tegundum er 18 til 20°C og gott er að lækka hitann um nokkrar gráður eftir að plönturnar koma upp. Annars vaxa þær of hratt og verða renglulegar.

Ef lítillar birtu gætir þar sem plönturnar eru aldar upp er nauðsynlegt að notast við raflýsingu til að koma í veg fyrir svokallaðar myrkraspírur. Yfirleitt nægir þó að láta ræktunarílátið standa á björtum stað því ekkert kemur í staðinn fyrir góða dagsbirtu.

Munið eftir smáfuglunum.

- Vilmundur Hansen