Flytja tré
Hvernig er best að flytja tré?
Hvernig er best að flytja tré?
Til þess að flutningur á stórum trjám takist verður að vanda vel allan undirbúning. Flutningur á trjám er vandasamt verk og tímafrekt og því nauðsynlegt að fara að öllu með gát.
Í fyrsta lagi verður að skoða tréð sem á að flytja og gera upp við sig hvort það sé fyrirhafnarinnar virði. Er tré það fallegt að það sómi sér vel á nýjum stað, hversu langlíf er tegundin og hversu vel þolir hún flutning?
Það er einkum þrennt sem réttlætir flutning á stórum trjám: Að þau séu falleg, það sé tegund sem vert er að halda upp á eða að tréð hafi persónulegt gildi.
Tré má flytja hvort sem er á vorin eða haustin. Séu tré flutt að vori ná þau að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxið frá því í apríl og fram í október og ættu því tré sem eru flutt snemma að geta fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Sé tréð flutt að hausti eru rætur að vaxa fram í október og síðan hafa þær forskot á vorin er þær hefja aftur vöxt í apríl.
Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.
Undirbúningur að flutningi stórra trjáa á að hefjast að minnsta kosti ári áður en flutningurinn sjálfur fer fram. Á fyrsta ári á að grafa holu og rótarskera hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer að sjálfsögðu eftir stærð þess. Þumalfingursreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með 10 og rótarstinga í þeirri fjarlægð frá honum. Hafa verður í huga að tré með stórum rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótarskorin. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum.
Þegar búið er að grafa 40-50 sm djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar á að fylla holuna aftur með lausum jarðvegi og þjappa honum hæfilega að rótunum. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinastan og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu. Hárræturnar, sem taka upp næringu og vatn úr jarðveginum, endurnýjast næst trénu þar sem skorið hefur verið og gerir því fært að jafna sig fyrr eftir flutninginn.
Undirbúa á jarðveginn á þeim stað sem tréð á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi.
Ári seinna er tréð rótarstungið hinum megin og undir ræturnar og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk til að halda honum vel saman. Gæta þarf þess að losa aftur um dúkinn þegar tréð er komið á sinn stað.
Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga svo að laufið vindþorni ekki á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini. Ef ekki er hægt að gróðursetja trén strax verður að koma þeim fyrir í mold á skuggsælum stað og í skjóli.
Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í nokkuð rýmri en hnausinn. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að þurfi að þvinga rótunum ofan í holuna, enda fer slíkt illa með trén. Skoða skal rótarkerfið vel áður en tréð er sett niður og klippa burt brotnar og sárar rætur. Einnig er gott að klippa ræturnar þannig að þær séu svipaðar að lengd og passi þannig vel í holuna.
Jarðvegurinn í kringum hnausinn verður líka lausari í sér eftir að tréð er komið niður og auðveldar því að skjóta rótum. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður.
Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda fyrst eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að veita því stuðning með því að reka niður stoð við hliðina á því og binda tréð við hana með böndum sem hafa góðan teygjanleika og leyfa það svigrúm sem trén þurfa til að kubbast ekki sundur í sterkum vindi.
Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni aldrei fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.
- Vilmundur Hansen.