Flokkar túlípana
Flokkar túlípana
Túlípanar eru til í mörgum stærðum, gerðum og litum og þeir eru margbreytilegir hvað varðar blómlögun og blómgunartíma. Árið 1917 var þeim skipt í deildir eða flokka í samræmi við þennan breytileika. Deildaskiptingin var endurskoðuð 1996 og núna eru deildirnar 15.
Deildir 12 til 15 eru það sem kallast bótanískir túlípanar en það eru túlípanar sem hafa verið lítið framræktaðir og líkjast því villtum túlípönum eins og þeir finnast í náttúrunni. Þeir eru yfirleitt minni en ræktuð yrki, bæði hæð og blómstærð.
- Ártúlípanar sem eru einfaldir og snemmblómstrandi, í byrjun maí. Blómin klukku- eða skálalaga. Stöngullinn milli 20 og 30 sentímetra hár. Harðgerðir og standa lengi.
- Ártúlípanar sem eru ofkrýndir og snemmblómstrandi, um miðjan maí. Stöngullinn 30 til 40 sentímetra hár. Fremur viðkvæmir.
- Tromptúlípanar. Snemmblómstrandi, í lok maí, stöngullinn 45 sentímetra háir.
- Kjörtúlípanar eða Darwins-túlípanar eru mjög harðgerðir, stöngullinn 60 sentímetra háir. Blómgast í byrjun júní. Líklega algengust túlípanarnir hér á landi.
- Síðtúlípanar eru einfaldir og síðblómstrandi. Stundum kallaðir kotatúlípanar. Allt að 60 sentímetra háir. Blómgast í lok júní og byrjun júlí.
- Liljutúlípanar. Upphaflega flokkaðir sem kotatúlípanar en settir sem sérdeild 1958. Stöngullinn 30 til 60 sentímetra hár. Blómblöðin hvöss og blómlögunin svipuð og hjá gömlum tyrkneskum túlípönum. Blómgast í lok júní og byrjun júlí.
- Kögurtúlípanar. Stöngullinn 30 til 45 sentímetra hár. Krónublöðin kögruð á jöðrunum. Eru komnir af kotatúlípönum og blómgast um sama leyti.
- Grænblóma. Stöngullinn stinnur, 30 til 60 sentímetra hár. Blómblöðin með grænni slikju. Blómgast fremur seint í júlílok en standa mjög lengi.
- Rembrandt-túlípanar voru vinsælir í eina tíð en fremur sjaldséðir nú til dags. Blómin oft marglit vegna vírussýkingar sem herjaði á laukinn. Mest ræktaðir af söfnurum og yfirleitt ekki á boðstólum í almennri sölu.
- Páfagaukstúlípanar. Blómhnappurinn líkist páfagauksnefi og krónublöðin kurlast í allar áttir eins og fjaðraskraut. Stöngullinn 40 til 60 sentímetra hár. Eru stökkbreytingar frá ýmsum síð- eða kotatúlípönum, en blómgast ögn síðar.
- Bóndarósatúlípanar eða fylltir síðtúlípanar, ofkrýndir og síðblómstrandi. Viðkvæmir og með blómum sem minna á blóm bóndarósarinnar. 30 til 60 sentímetra háir. Henta vel í ker. Blómgast í júlí. Þurfa gott skjól eða stuðning, blómin vilja slitna af í vindi.
- Kaupmannatúlípanar eru bótanískir túlípanar. Blómið einfalt og opnar sig vel. Stöngullinn 15 til 30 sentímetra hár. Blómgast í apríl og maí.
- Eldtúlípanar eru bótanískir túlípanar. Upphaflega víxlfrjóvgun milli kaupmanna- og dílatúlípana. Lágvaxinn, 20 til 45 sentímetrar. Blöðin grá- og gljágræn að lit. Blómgast í maí og júní.
- Dílatúlípanar eru bótanískir túlípanar. Snemmblómstrandi. Stöngullinn 20 til 30 sentímetra hár. Blómgast í maí.
- Villitúlípanar eru ýmsar bótanískar smávaxnar tegundir. Harðgerðir en lágvaxnir, stöngullinn 10 til 30 sentímetrar á hæð. Fljótir að aðlaga sig og henta í sumarbústaðalönd.