Fjölærar plöntur
Fjölærar plöntur
Fjölærar jurtir skipa stóran sess í ræktun margra garða, enda skipta tegundir og afbrigði þúsundum. Blómlitir, hæð og blaðlögun eru óteljandi og möguleikarnir sem bjóðast eru óendanlegir.
Þrátt fyrir að liðið sé á sumar mælir ekkert gegn því að planta fjölærum plöntum fram á haust og vinna þannig í haginn fyrir næsta sumar.
Við val á fjölærum jurtum verður að velja þær út frá hæð, blómlit, blaðlögun og blómgunartíma, auk þess sem taka verður tillit til þess hvort þær þola skugga, í hvernig jarðvegi þær dafna best og hvað þær þurfa mikið rými. Einnig er ráðlagt að velja jurtir sem blómstra á mismunandi tíma svo að garðurinn sé í blóma frá vori fram á haust.
Við skipulagningu beða þarf að raða jurtunum eftir lit og blómgunartíma þannig að eitthvað sé í blóma í beðinu frá vori og fram á haust.
Gróðursetja þarf hæstu jurtirnar aftast í beð sem eru uppi við hús eða vegg svo þær skyggi ekki á smærri plöntur. Sé beðið aftur á móti á miðri lóð eða hringlaga þarf að gróðursetja hæstu jurtirnar innst og lækka hæðina eftir því sem utar dregur. Fallegt getur verið að planta jurtum af sömu tegund í stórar breiður í beðum þannig að þær njóti sín vel.
- Vilmundur Hansen.