Flestar ef ekki allar bóndarósir bera stór blóm sem eru til í ýmsum litum, hvít, gul, bleik, rauð og allt þar á milli. Lögun blóma er fjölbreytt og geta þau verið einföld og fyllt. Sumar bóndarósir auka enn á fegurð sína með því að gefa frá sé góðan ilm og voru krónublöð þeirra í eina tíð notuð til ilmvatnsgerðar. 


Sú bóndarós sem algengust er í görðum hér á landi kallast Paeonia officinalis á latínu og finnst villt við Miðjarðarhafið og á grísku eyjunum í Eyjahafinu. 

Bóndarósir eru yfirleitt auðveldar í ræktun eftir að þær hafa komið sér fyrir. Plantan er langlíf og líður best ef hún fær að standa lengi óhreyfð á sama stað. Plönturnar geta orðið fyrirferðarmiklar með tímanum og því best að ætla þeim gott pláss strax í upphafi. 

Þeim líður best í þurrum, djúpum, frjósömum og eilítið basískum jarðvegi. Jurtkenndar bóndarósir geta orðið 50 til 100 sentímetrar á hæð allt eftir tegund og er vöxtur þeirra kúlulaga. 

Vegna þunga blaða og blóma eiga plönturnar það til að leggjast út af fái þær ekki stuðning. Blómgun á sér yfirleitt stað í lok júní og fram í júlí en að henni lokinni skarta plantan fallegum blaðskrúð.

Þegar rótarbút af bóndarós er komið fyrir í jarðvegi verður að gæta þess að stinga honum ekki of djúpt í moldina. Fjórir til fimm sentímetrar undir yfirborðinu er passlegt, sé stungið dýpra er plantan lengur að koma upp og það tefur fyrir blómgun. Sé aftur á móti stungið grynnra getur rótin skemmst vegna vetrarkulda. 

Ræturnar þola alls ekki að standa í bleytu og fúna fljótlega við slíkar aðstæður.


Bóndarósir skjóta fyrstu sprotunum upp snemma á vorin og því getur reynst nauðsynlegt að skýla þeim ef það kemur kuldakast. Einnig er nauðsynlegt að skýla viðkvæmustu tegundunum yfir veturinn að minnsta kosti á meðan þær eru litlar.

Nafnið bóndarós bendir til að fyrstu bóndarósirnar í íslenskum görðum eigi uppruna sinn að rekja til Danmerkur þar sem plantan kallast bonderose. Ekki er vitað með vissu hver var fyrstur til að flytja bóndarósina til Íslands en óneitanlega kemur Jón Rögnvaldsson fyrrum forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri sterklega til greina. 

Sunnar í Evrópu eru bóndarósir kenndar við gríska lækninn Paion sem samkvæmt Ilíonskviðu Hómer á að hafa grætt sár Aresar, sem hann hlaut í Troju-stríðinu, með smyrslum sem unninn voru úr jurtinni.

Vilmundur Hansen.