Gluggar og gott viðhald

Eitt af þeim verkum sem margir húseigendur geta annast sjálfir er viðhald á gluggum. Góð regla er að skoða gluggana vel á hverju vori og skoða hvernig þeir koma undan vetri. Er málningin farin að losna eða flagna? Með því að skoða málninguna vel kemur strax í ljós ef svo er.

Besta leiðin er að bregða málningarsköfu eða svipuðu áhaldi á málninguna næst glerinu eða stinga í málninguna með hnífsoddi og ef hún lætur ekki undan þá er ástand gluggans í góðu lagi og ekki þörf á viðhaldi að sinni. Ef málningin á hinn bóginn losnar upp er komin þörf á viðhaldi og þá þarf að skoða vandlega hversu umfangsmikið það þarf að vera.

Ef málningin losnar af í stórum bitum, þannig að viðurinn einn er eftir, hefur undirvinnu verið áfátt, eða ekki hafa verið notuð rétt efni í byrjun. Í slíkum tilfellum þarf að skoða vel hvort viðurinn sé farinn að fúna og hvort grípa þurfi til víðtækara viðhalds en bara málningarvinnu.

Leitið aðstoðar sérfræðinga eða fagmanna ef vafi leikur á ástandi gluggans.

Grundvallaratriði að skafa alla lausa málningu af

Einnig þarf að skoða vel ástand glerlista og þéttingar á milli lista og glers. Skoða þarf hvort hætta sé á því að leki geti myndast á milli lista og glers þannig að vatn eða raki eigi greiða leið undir glerið og geti með því hraðað hrörnun gluggans sjálfs.

Grundavallaratriði við málun á glugga er að hreinsa burt alla eldri málningu vel. Leitið upplýsinga í málningardeildum Húsasmiðjunnar um hvaða verkfæri henti best til að hreinsa burt gamlar málningarleifar. Þegar búið er að skafa alla lausa málningu af getur verið gott að fara yfir gluggann með milligrófum sandpappír til þess að gera yfirborðið móttækilegra fyrir nýrri umferð af málningu.

Ef málningin hefur losnað frá viðnum þannig að hann sést þarf að grunna hið minnsta þessa fleti með viðeigandi grunni. Ef um er að ræða glugga sem ekki hafa verið málaðir áður verður að grunna viðinn fyrst áður en hafist er handa við að mála.

Þá má mála gluggann

Að þessu loknu er hægt að hefjast handa við að mála gluggann.

Gætið þess að glugginn sé örugglega þurr áður en málað er. Gott ráð getur verið að líma málningarlímband á glerið til að komast hjá því að málning setjist á það þegar verið er að mála. Hafið í huga að fjarlægja límbandið fljótlega eftir að málað er, áður en málningin nær að harðna þannig að hún losni ekki upp þegar límbandið er rifið af og myndi þannig greiða leið fyrir vatn og raka undir málninguna.

Á eldri gluggum getur verið gott að líma málningarlímbandið með um það bil tveggja millimetra bili á milli gleri og gluggalista því þá myndar málningin þéttingu á milli glers og lista. Ekki er þörf á þessu með nýrri gerðir glugga þar sem gúmmíkantur er á milli lista og glers og myndar þéttinguna. Í þeim tilfellum má ekki fara málning á gúmmíkantinn því þá tapar þéttingin eignleikum sínum. Ef málning nær eftir sem áður að sullast á glerið er auðvelt að hreinsa hana af með glersköfu ef það er gert áður en hún harðnar.

Það getur verið gott að nota tvær stærðir pensla þegar verið er að mála glugga. Minni kantpensil til að mála næst glerinu og gluggapósta, en stærri pensil til að mála stærri fleti. Fáið ráðgjöf í málningardeild Húsasmiðjunnar varðandi val á penslum þegar málningin er keypt.

Byrjið á því að mála næst glerinu og gætið þess að málningin ná vel í öll horn. Málið síðan stærri fleti í lengri strokum til að fá fallega áferð. 

Olíubornir gluggar

Nokkuð hefur færst í vöxt að gluggar í nýrri húsum séu ekki málaðir en í staðinn meðhöndlaðir með olíu eða viðarvörn. Þessi gluggar þarfnast ekki síður viðhalds en málaðir gluggar og því þarf að fylgjast vel með ástandi viðarins.

Þegar þörf er á viðhaldi skiptir miklu máli að hreinsa gluggann vel áður en ný umferð af olíu eða viðarvörn er borin á. Ryk og óhreinindi sem eru á yfirborðinu þarf að hreinsa vel. Með nægum fyrirvara getur verið gott að þvo gluggana einfaldlega með sápuvatni og láta þá þorna vel áður en málað er. Ef þess er ekki kostur þarf að hreinsa viðinn vel með stífum bursta. Ekki er ráðlagt að nota vírbursta því hann getur skaðað viðaryfirborðið.

Vætið síðan tusku með terpentínu (white spirit) og þurrkið yfirborðið vel áður en olía eða viðarvörn er borin á. Að öðru leyti eiga aðrar leiðbeiningar um málun glugga við í þessu tilfelli.

Þegar viðargluggar eru olíubornir er mikilvægt að umframefni sem ekki gengur inn í viðinn sé þurrkað af (þetta á aðeins við um harðan við, t.d. mahóní). Bæði getur ryk og óhreinindi sest í olíupolla á viðnum og einnig geta slíkir pollar myndað filmuhúð sem síðan flagnar af þegar hún þornar og eftir stendur óvarinn viðurinn.

Gott að hafa í huga

  • Leitaðu álits faglærðra málara eða smiða ef gluggi virðist skemmdur eða fúinn
  • Leitaðu ráðgjafar í málningardeildum Húsasmiðjunnar varðandi áhöld og efni til verksins
  • Farðu yfir glugga a.m.k. árlega og kannaðu hvort komið er að reglulegu viðhaldi
  • Reglulegt viðhald lengir líftíma gluggans og kemur í veg fyrir kostnaðarsamar viðgerðir eða jafnvel það að kaupa þurfi nýja glugga.

Hvað eru viðhaldslitlir gluggar?

Húsasmiðjan býður upp á viðhaldslitla ál/tréglugga frá þekktum framleiðendum eins og Rationel og Velfac. Mjög algengt er að byggingaverktakar velji ál/tréglugga í nýbyggingar í dag. Sífellt algengara er að gömlum viðargluggum sé skipt út fyrir nýja ál/tréglugga. Hægt er að velja um marga liti og gerðir. Fáðu nánari upplýsingar hjá ráðgjöfum okkar um land allt.